Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í september 2015

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni í september sl. hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til laust fyrir hádegi þ. 12. október, höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 575 búa sem skráð voru til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 23.682,5 árskúa á þessum 93% búanna, var 5.808 kg á síðustu 12 mánuðum. Sambærileg meðalnyt reiknaðist 5.790 kg í ágúst en þá voru skýrsluskil þ. 11. september í sama hlutfalli og nú, 93%. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem skilað hafði verið frá á fyrrnefndum tíma, var 44,4 nú en 43,6 við mánaðamótin á undan. Hafa þarf í huga að ekki er hér um að ræða 100% skil skýrslna og skoða ber niðurstöðurnar í því ljósi.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum var á sama búi og fyrir mánuði, búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en þar var meðalnyt árskúnna að þessu sinni 8.147 kg. Annað búið í röðinni núna, sama og við seinasta uppgjör, var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem nytin reyndist nú 7.881 kg eftir hverja árskú. Þriðja í röðinni nú, einnig hið sama og við lok ágúst var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði þar sem hver árskýr skilaði 7.799 kg á umræddu tímabili. Í fjórða sæti að loknum september var bú Pálma Ragnarssonar í Garðakoti í Hjaltadal þar sem meðalárskýrin reiknaðist með 7.704 kg meðalnyt. Fimmta búið á listanum að þessu sinni var Félagsbúið í Engihlíð í Vopnafirði en afurðirnar þar reyndust 7.671 kg eftir árskú.

Kýr nr. 1237 (f. Ás 02048) í Bjólu 2 í Rangárþingi ytra (áður Djúpárhreppi) mjólkaði mest á síðustu 12 mánuðum, 13.341 kg. Hún var fjórða í röðinni á þessum lista fyrir mánuði síðan. Næst á eftir henni var Varða 420 (f. Glæðir 02001) á Skúfsstöðum í Hjaltadal en hún skilaði 12.974 kg á tímabilinu. Þriðja kýrin í röðinni nú en efst fyrir mánuði var Urður nr. 1229 (f. Laski 00010) á Hvanneyri í Borgarfirði með 12.903 kg á síðustu 12 mánuðum. Í fjórða sæti var kýr nr. 783 (f. Ófeigur 02016) á Espihóli í Eyjafjarðarsveit en nyt hennar var 12.813 kg á síðustu 12 mánuðum. Fimmta kýrin á listanum við lok september var Ausa nr. 306 (f. Þverteinn 97032) í Garðakoti í Hjaltadal sem mjólkaði 12.670 kg á tímabilinu. Ausa var þriðja efst á listanum fyrir mánuði.

Alls náðu 41 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum fyrir september hafði verið skilað frá undir hádegi 12. október að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Við seinasta uppgjör náðu 32 kýr þessu marki. Tólf af þessum 41 kú náðu að skila meiri mjólk en 12.000 kg en fyrir mánuði náðu 6 kýr því marki. Enn fremur mjólkaði ein þessara kúa vel yfir 13.000 kg á síðustu 12 mánuðum eins og fram hefur komið.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk