Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nýliðnum júní

Glennir frá Reykjum á Skeiðum - faðir Gýmir 11007 og móðir Glenna 768.
Glennir frá Reykjum á Skeiðum - faðir Gýmir 11007 og móðir Glenna 768.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar nú í nýliðnum júní hafa verið birtar á vef okkar. Rétt er að geta þess að niðurstöðurnar í skýrsluhaldi mjólkurframleiðenda byggjast á skilum mjólkurskýrslna og annarra skráninga eins og staðan á þeim var laust eftir hádegið þ. 11. júlí 2019.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 515 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 102 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.431,8 árskúa á fyrrnefndum 515 búum var 6.232 kg á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum 515 var 47,4.

Meðalnyt árskúa var á síðustu 12 mánuðum, mest á búi Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal, hinu sama búi og undanfarna mánuði, þar sem hver árskýr mjólkaði nú að meðaltali 8.418 kg. Í öðru sæti nú, eins og fyrir mánuði, var bú Gunnbjarnar ehf. í hinum forna Gnúpverjahreppi þar sem meðalárskýrin skilaði 8.289 kg. að jafnaði á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni, einnig hið sama og við seinasta uppgjör, var bú Búkosta ehf. í Reykjahlíð á Skeiðum en þar var meðalnyt árskúa 8.242 kg. að þessu sinni. Fjórða sætið skipaði nú bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Þingeyjarsveit þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist að jafnaði 8.170 kg. Hið fimmta í röðinni að þessu sinni var Hvanneyrarbúið í Andakíl þar sem árskýrnar mjólkuðu að meðaltali 8.153 kg. á tímabilinu.

Nythæst kúa sl. 12 mánuði líkt og við seinasta uppgjör var kýrin Gola 694 (f. Þytur 09078) í Egilsstaðakoti í Flóa en nyt hennar var 15.315 kg. á tímabilinu. Önnur í röðinni var nú Fríða 821 (f. 668, dótturs. Fonts 98027 og sonars. Ljúfs 05040) í Flatey á Mýrum í Hornafirði sem mjólkaði 13.665 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja kýrin nú var Dúna 464 (f. Muni 10018) í Ásgarði í Reykholtsdal sem mjólkaði 12.984 kg. Fjórða var Stjörnurós 735 (f. Úlli 10089) á Kúskerpi í Blönduhlíð sem skilaði 12.641 kg. Fimmta var síðan kýr nr. 910 í Flatey á Mýrum sem mjólkaði 12.573 kg. á tímabilinu. Alls náðu 87 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum júnímánaðar hafði verið skilað frá skömmu eftir hádegi þ. 11. júlí, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 16 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og þar af tvær sem mjólkuðu meira en 13.000 kg. Enn fremur má geta þess sérstaklega að nythæsta kýrin mjólkaði meira en 15.000 kg. eins og fram hefur komið.

Meðalfjöldi kúa á kjötframleiðslubúunum reiknaðist 22,8 en árskýrnar reiknuðust að jafnaði 18,1 og meðalkjötframleiðsla á þeim búum sl. 12 mánuði reyndist 4.823,2 kg. Meðalfallþungi allra ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, skráðra í slátrun frá öllum búum undanfarna 12 mánuði var 241,1 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra við slátrun var 737,9 dagar.

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk