Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nóvember 2014

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nóvember eru orðnar aðgengilegar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður sem nú birtast urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. desember var búið að skila skýrslum fyrir síðastliðinn mánuð frá 92% þeirra 578 búa sem nú eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu. Reiknuð meðalnyt 21.875,2 árskúa á þeim búum sem skýrslur höfðu borist frá fyrir miðnætti 10. desember, var 5.772 kg sl. 12 mánuði en samsvarandi tala var 5.763 kg við lok október. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum búum var 41,4 og hafði þeim fjölgað um 0,2 frá næstliðnu uppgjöri.

Rétt er að ítreka að þær niðurstöður sem birtar eru nú koma frá 92% skýrsluhaldara og gott er að hafa það í huga þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum, líkt og við síðasta uppgjör var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal. Þar var meðalnytin nú 7.947 kg á árskú. Næsta bú í röðinni að þessu sinni var bú Kristjáns Hans Sigurðssonar í Lyngbrekku á Fellsströnd, en þar var reiknuð meðalnyt nú 7.783 kg eftir árskú. Þriðja búið nú, sama og fyrir mánuði, var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd með reiknaða meðalnyt 7.747 kg á árskú. Í fjórða sæti var sama bú og við uppgjör októbermánaðar, Félagsbúið á Espihóli í Eyjafjarðarsveit en þar var meðalnytin 7.738 kg á árskú. Fimmta búið í röðinni núna var bú Félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum. Meðalnytin þar reyndist 7.684 kg eftir árskú. Á 33 búum reiknaðist meðalnytin nú 7.000 kg eða meiri en þau voru 34 fyrir mánuði síðan.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var  Bomba 157 (f. Indriði nr. 94 undan Fonti 98027) á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði og skilaði hún 13.185 kg nyt á tímabilinu. Hun var í öðru sæti á þessum lista við seinasta uppgjör. Önnur á listanum yfir afurðahæstu kýrnar að þessu sinni var Flóra 1294 (f. Náttfari 00035) í Flatey á Mýrum í Hornafirði en nyt hennar reyndist 13.171 kg. Hún stóð efst fyrir mánuði. Þriðja kýrin nú var Laufa 1089 (f. Fróði 96028), einnig í Flatey á Mýrum í Hornafirði. Laufa mjólkaði 12.951 kg á sl. 12 mánuðum. Fjórða kýrin nú eins og fyrir mánuði síðan var Huppa 352 (f. Stígur 97010) í Kálfagerði í Eyjafirði og mjólkaði hún 12.659 kg á tímabilinu. Kýrin sem var í fimmta sæti eftir uppgjör nóvembermánaðar var Agla 361 (f. Þrasi 98052) í Viðvík í Skagafirði. Nyt hennar nú var 12.404 kg en hún var þriðja á listanum fyrir mánuði. 

Alls náðu 26 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum hafði verið skilað frá á miðnætti aðfaranótt 11. desember að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum en fyrir mánuði voru þær 25. Af þessum hópi mjólkuðu 8 yfir 12.000 kg og þar komust tvær vel yfir 13.000 kg markið.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk