Völlur vinsælastur - Sauðfjársæðingar 2019

Völlur 18-835
Völlur 18-835

Sauðfjársæðingar fóru vel af stað nú í byrjun desember og stefndi í talsverða aukningu miðað við sl. ár. Veðrið setti hinsvegar strik í reikninginn en vonskuveðrið sem gekk yfir landið hitti einmitt á þá viku sem vinsælust er til sæðinga. Niðurstaðan var að útsendir skammtar frá sæðingastöðvunum voru 31.253. Þetta eru þó aðeins fleiri útsendir skammtar en árið 2018 eða aukning um 1.294. Ekki liggur fyrir hve margar ær voru sæddar. Þeir sem hafa ekki skráð sæðingarnar inn í Fjárvís.is eru hvattir til þess að gera það sem fyrst, því mikilvægt er að sæðingarnar séu skráðar m.a. þannig að hægt sé að fylgjast með árangri.

Hlutdeild sæðingastöðvanna var svipuð. Frá Þorleifskoti voru sendir út 15.880 skammtar en frá Borgarnesi 15.373. Munur milli stöðvanna var meiri í fyrra, en þá voru sendir út um 2.000 fleiri skammtar frá Þorleifskoti en frá Borgarnesi. Vinsælasti hrúturinn þetta árið var Völlur 18-835 frá Snartarstöðum en úr honum fóru 1.755 skammtar til sauðfjárbænda. Úr eftirtöldum hrútum voru sendir út 1.000 skammtar eða fleiri:

  • Völlur 18-835 frá Snartarstöðum (1.755 skammtar) – S
  • Mjölnir 16-828 frá Efri-Fitjum (1.602 skammtar) – V
  • Stapi 16-829 frá Kirkjubæjarklaustri II (1.565 skammtar) – S
  • Hólkur 15-823 frá Brekku (1.541 skammtur) – V
  • Amor 17-831 frá Snartarstöðum (1.515 skammtar) – V
  • Fálki 17-821 frá Bassastöðum (1.401 skammtur) – V
  • Rammi 18-834 frá Hesti (1.366 skammtar) – V
  • Mínus 16-827 frá Mýrum 2 (1.263 skammtar) – V
  • Glæpon 17-809 frá Hesti (1.260 skammtar) – S
  • Durtur 16-994 frá Hesti (1.079 skammtar) – V
  • Glámur 16-825 frá Svartárkoti (1.075 skammtar) – S

Hrútar í Þorleifskoti merktir með „S“ og hrútar sem stóðu í Borgarnesi með „V“

Tveir hrútar nýttust lítið vegna heilsuvandamála, en það voru þeir Köggull 17-810 og Dúlli 17-813. Köggull fékk lungnabólgu en Dúlli glímdi við hlandstein. Þeir hafa báðir verið felldir. Þá voru nokkrir aldnir höfðingjar látnir fara að loknum sæðingum sem ýmist voru taldir fullnotaðir eða af heilsufarsástæðum. Það eru þeir Dreki 13-953, Tvistur 14-988, Náli 15-806, Blær 11-979, Plútó 14-973, Jökull 13-811, Fannar 14-972, Melur 12-978, Lobbi 09-939 og Nikulás 15-977. Þá hefur Bíldur 14-800 reynst lélegur sæðisgjafi og var hann einnig látinn fara.

ee/okg