Viðurkenningar fyrir bestu nautin fædd 2014 og 2015 afhent

Bolette Höeg Koch og dætur með viðurkenningu fyrir Hæl 14088. Mynd: Bbl., Guðrún Hulda Pálsdóttir.
Bolette Höeg Koch og dætur með viðurkenningu fyrir Hæl 14088. Mynd: Bbl., Guðrún Hulda Pálsdóttir.

Viðurkenningar Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, fyrir bestu nautin í árgöngum 2014 og 2015, voru veittar við lok Búgreinaþing kúabænda í gær, föstudaginn 4. mars 2022. Besta nautið í árgangi 2014 var valið Hæll 14008 frá Hæl 1 í Eystrihreppi og Tanni 15065 frá Tannstaðabakka í Hrútafirði besta nautið í árgangi 2015.

Ræktendur Hæls 14008 eru þau Bolette Höeg Koch og Sigurður Steinþórsson heitinn og tók Bolette við viðurkenningunni, ásamt dætrum þeirra Sigurðar, úr hendi Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur formanns Deildar kúabænda. Ræktendur Tanna 15065 eru þau Guðrún Eik Skúladóttir og Óskar Már Jónasson og tók Guðrún Eik við viðurkennningunni.

Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um nautin fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom fram að Hæll 14008 hlaut eftirfarandi umsögn fyrir dætur:
Dætur Hæls eru í góðu meðallagi mjólkurlagnar kýr með há efnahlutföll í mjólk. Þetta eru fremur stórar kýr, í góðu meðallagi háfættar, boldjúpar og útlögumiklar með aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru breiðar, beinar og fremur flatar. Fótstaða er sterkleg og gleið. Júgurgerðin er úrvalsgóð, júgurfesta mikil og júgrin vel borin með sérlega áberandi júgurband. Spenar eru vel gerðir og vel settir en grannir. Mjaltir eru í góðu meðallagi og skapið um meðallag.

 

Þá hlaut Tanni 15065 fékk eftirfarandi umsögn fyrir dætur:
Dætur Tanna eru góðar mjólkurkýr þar sem magn er meðalmikið og fituhlutfall í mjólk nokkuð hátt en próteinhlutfall heldur undir meðallagi. Þetta eru fremur smáar kýr og í meðallagi háfættar, bolgrunnar með ágætar útlögur og aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru frremur grannar, aðeins hallandi og flatar. Fótstaða er í meðallagi sterkleg. Júgurgerðin er úrvalsgóð, júgurband áberandi, festa gríðarmikil og þau áberandi vel borin. Spenar eru langir og grannir en vel settir. Mjaltir eru í góðu meðallagi og lítið ber á mjaltagöllum. Skap þessara kúa er meðalgott en fyrir koma skapgallaðir gripir. 

Fagráð í nautgriparækt, Nautastöðin, Bændasamtökin og RML óska ræktendum Hæls og Tanna til hamingju með viðurkenningarnarog þakka fyrir hönd kúabænda fyrir ræktun þessara miklu kynbótagripa.