Viðurkenningar fyrir bestu nautin fædd 2011 og 2012 afhent

F.v. Sveinbjörn Eyjólfsson, Borghildur Kristinsdóttir, Ólafur Stefánsson, Ásta Oddleifsdóttir og Guð…
F.v. Sveinbjörn Eyjólfsson, Borghildur Kristinsdóttir, Ólafur Stefánsson, Ásta Oddleifsdóttir og Guðný Helga Björnsdóttir. (Mynd: smh/Bændablaðið)

Viðurkenningar Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, fyrir bestu nautin í árgöngum 2011 og 2012, voru veittar við upphaf fagþings nautgriparæktarinnar sem haldið var í dag. Besta nautið í árgangi 2011 var valið Gýmir 11007 frá Berustöðum 2 í Ásahreppi og Sjarmi 12090 frá Hrepphólum í Hrunamannahreppi besta nautið í árgangi 2012.

Ræktendur Gýmis eru þau Erla Traustadóttir og Egill Sigurðsson, en nágranni þeirra Borghildur Kristinsdóttir í Skarði tók við viðurkenningunni að þeim fjarstöddum úr hendi Sveinbjörns Eyjólfssonar forstöðumanns Nautastöðvarinnar. Ræktendur Sjarma eru þau Ásta Oddleifsdóttir og Ólafur Stefánsson og tóku þau við viðurkenningunni úr hendi Guðnýjar Helgu Bjarnadóttur, formanns fagráðs í nautgriparækt. 

Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um nautin fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom fram að Gýmir 11007 hlaut eftirfarandi umsögn fyrir dætur:
Dætur Gýmis eru mjólkurlagnar og efnahlutföll í mjólk eru ofan meðallags. Þetta eru stórar og háfættar kýr, boldýpt og útlögur eru fremur litlar og yfirlína veik. Malirnar eru meðalbreiðar, nokkuð hallandi en fremur flatar. Fótstaða er bein og sterkleg. Júgurgerðin er góð, júgurfesta meðalmikil og júgrin vel borin en júgurband ekki sérlega áberandi. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og vel settir. Mjaltir eru í meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skapið er mjög gott.

Þá hlaut Sjarmi 12090 fékk eftirfarandi umsögn fyrir dætur:
Dætur Sjarma eru mjög mjólkurlagnar kýr en fituhlutfall í mjólk er undir meðallagi og próteinhlutfall um meðaltal. Þetta eru fremur stórar og í góðu meðallagi háfættar kýr, boldýpt þeirra er í meðallagi, útlögur miklar en yfirlína aðeins veik. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar og nokkuð flatar. Fótstaða er aðeins hokin en gleið. Júgurgerðin er afbragðsgóð, mikil festa, áberandi júgurband og júgrin eru vel borin. Spenar eru vel gerðir, í tæpu meðallagi að lengd og þykkt og mjög vel settir. Mjaltir þessara kúa eru góðar og mjaltagallar fátíðir þó nokkrar fái þá umsögn að vera seinar. Skapið er gott.

Fagráð í nautgriparækt og Nautastöðin óska ræktendum Gýmis og Sjarma til hamingju með viðurkenningarnar með þökkum fyrir ræktun þessara miklu kynbótagripa.

/gj