Viðurkenning fyrir besta nautið fætt 2008 afhent

Mynd: Sigurður Már Harðarson/Bbl.
Mynd: Sigurður Már Harðarson/Bbl.

Á fagþingi nautgriparæktarinnar 31. mars 2016 var afhent viðurkenning fyrir besta nautið fætt árið 2008 frá Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Að þessu sinni hlaut kynbótanautið Bambi 08049 frá Dæli í Fnjóskadal þessa nafnbót. Guðný Helga Björnsdóttir, formaður fagráðs í nautgriparækt, og Sigurður Loftsson, fráfarandi formaður Landssambands kúabænda, afhentu ræktendum Bamba, þeim Margréti Bjarnadóttur og Geir Árdal, ábúendum í Dæli, viðurkenninguna og við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin.

Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um Bamba fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom m.a. fram að Bambi var fæddur 4. nóvember 2008 í Dæli og var undan Laska 00010 frá Dalbæ í Hrunamannahreppi og Stáss 3019 í Dæli Kaðalsdóttur frá Miklagarði í Saurbæ. Ræktendur Bamba voru hjónin Margét Bjarnadóttir og Geir Árdal, bændur í Dæli.
Í umsögn um dætur Bamba kemur fram að þær eru prýðilegar mjólkurkýr og hlutfall verðefna í mjólk er hátt. Þetta eru fremur smáar en í góðu meðallagi háfættar kýr. Þær eru meðalkýr hvað snertir boldýpt en útlögur eru miklar og yfirlínan er eilítið veik. Malir eru í meðallagi breiðar, hallandi en fremur flatar. Fótstaða er mjög sterkleg og góð. Júgurgerð dætra Bamba er úrvalsgóð, þau eru vel löguð, gríðarvel borin með geysimikla festu og sérlega sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru stuttir, grannir og mjög vel settir. Dætur Bamba eru frábærar í mjöltum og skapi.
Guðmundur sagði að þessi úrvalsgóða umsögn endurspeglaðist í háu kynbótamati Bamba en hann stæði nú efstur allra íslenskra nauta. Þá væri ljóst að bændur kynnu vel að meta þessa kostagripi sem sæist hvað best í gríðarháu kynbótamati hans fyrir gæðaröð, 142.

Fagráð í nautgriparækt og Nautastöð BÍ óska ræktendum Bamba til hamingju með viðurkenninguna með þökkum fyrir ræktun þessa mikla kynbótagrips.

/gj