Vert að hafa í huga við fósturvísaflutning

Í vor var fósturvísum dreift til bænda og kom á dögunum fyrirspurn um leiðbeiningar við val á kúm til að setja fósturvísa upp hjá. Það er eitt og annað sem þarf að hafa í huga við slíkt val.

Val á kúm:

  • Kýr sem eru 3-8 ára eru heppilegastar, en þá er komin ákveðin reynsla á þær, þetta á sérstaklega við ef að kálfurinn gengur undir.
  • Frjósamar kýr er lykilatriði. Kýr með kálf má nota.
  • Rólegar kýr.
  • Holdastig 6 er heppilegt fyrir holdakýr. Allar kýr þurfa að vera í jákvæðu orkujafnvægi.

Undirbúningur:

  • Mælt er með að kýr séu komnar meira en 60 daga frá burði og ef mögulegt er, er heppilegt að bíða 75-80 daga fram yfir burð.
  • Einsleit fóðrun síðustu 6 vikurnar áður en fósturvísir er settur upp og 8 vikur eftir. Ekki er mælt með að setja kýr sem hafa verið á húsi á mikið gras strax eftir að fósturvísir er settur upp. Ef það þarf að breyta fóðruninni eftir uppsetningu er mælt með að gera það hægt.
  • Kýr þurfa að fá vítamín og steinefni í fóðurblöndu. Ef maður er ekki með heilfóður er góður kostur að notast við forðastaut.

Beiðsli og uppsetning:

  • Mikilvægt er að hafa dýralækni og frjótækni með sér í liði!
  • Hægt er að notast við beiðlisgreiningu eða samstillingu.
  • 7 dögum eftir standandi beiðsli eða 5 dögum eftir blóð á kýrin að vera tilbúin til uppsetningar.
  • Dýralæknir þarf að skoða kúna til að finna á hvaða eggjastokk egglosið er.
  • Frjótæknir setur upp fósturvísi þar sem egglosið er.

Sumir holdanautabændur hafa kannski verið að velta fyrir sér að nota holdakýr í verkefnið. Það er vel hægt og er það gert erlendis. Hins vegar þarf að hafa í huga að fóðrunin þarf að vera einsleit og það þarf að hafa aðstöðu til að taka kýr frá og fylgjast með beiðslum, en það er mikilvægt hvort sem maður notast eingöngu við beiðslisgreiningu með eða án hjálpartækja eða við samstillingu. Það getur verið erfitt að greina beiðsli í holdakúm og krefst það mikillar vinnu og metnaðar. Spurning er hvort auðveldara sé að fá lánaðar eða leigja mjólkurkýr til að setja fósturvísi í og reyna frekar að sæða holdakýrnar með nýja sæðinu. Íslenskar mjólkurkýr eru gjarna á svipuðu fóðri allt árið, oftast vanari mönnum og meðhöndlun. Tryggja þarf að kýrnar fái vítamín og steinefni.

Á kálfurinn að ganga undir eða alast í kálfastíu?

  • Meiri þroski næst ef að kálfinn gengur undir.
  • Heppilegt að venja tvo kálfa undir eina kú ef um mjólkurkýr er að ræða. Einn kálfur er fínn fyrir hverja holdakú en þær mjólka ekki eins mikið.

/okg