Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Í vikunni sendu Hestafréttir fyrirspurn i nokkrum liðum varðandi verðskrá RML. Hér að neðan eru svör okkar sem ég vona að svari þeim efnisatriðum sem spurt var um. RML er ekki hagnaðardrifið fyrirtæki og er að greiða með flestum þeim verkefnum sem það hefur undir höndum. Á síðustu árum höfum við mátt þola mikinn niðurskurð og höfum við reynt að bregðast við því án þess að skerða þjónustu eða hækka verðskrár umfram kostnaðarauka. Við höfum átt mjög gott samstarf við hestamenn sem og aðra búfjáreigendur enda fyrirtækið í eigu bænda og í stjórn þess sitja bændur.
Bestu kveðjur til hestamanna um land allt.
Karvel Lindberg Karvelsson
Framkvæmdastjóri RML
1. Er verðskrá RML borin undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til samþykktar áður en hún er birt opinberlega? Hefur ráðuneytið síðasta orðið um verðskrána?
Svar: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samþykkir verðskrá RML bæði hvað varðar, verð á kynbótasýningum og útselda þjónustu RML og hefur því síðasta orðið hvað heimild til hækkun varðar. Endanleg ákvörðun er tekin í stjórn RML um hvort heimildin sé nýtt.
2. Hversu mikið fé fær RML frá ríkinu á fjárlögum? Hve há var þessi upphæð 2019 og hve há er hún fyrir árið 2020? Hve mikið af þessu fé rennur til málaflokka sem tengjast hrossarækt og hrossahaldi og hvernig skipist það niður?
Svar: Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er ekki á fjárlögum og er ekki stofnun, heldur fær til sín hluta af þeim fjármunum sem samið var um í rammasamningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands 2017-2026. Árið 2019 voru þessi framlög um 62% af heildarrekstrartekjum RML og áætlun gerir ráð fyrir að árið 2020 verði þetta hlutfall komið niður í 51% af heildar rekstrartekjum og mun halda áfram að minnka út samningstímann. Framlögin eru ekki skilgreind niður á búgreinar heldur hugsuð til að standa undir lögbundum verkefnum og til að greiða niður ráðgjafarþjónustu til þeirra aðila sem falla undir rammasamninginn samkvæmt skilgreiningu í 2. grein samningsins. Þeir aðilar sem nýta sér þjónustu RML og falla undir þessa skilgreiningu greiða lægra tímagjald og eru þar með að nýta þau framlög sem koma til RML í gegnum rammasamning. Á hverju ári dregst þetta framlag saman og á síðustu 3 árum hefur það minnkað um 75 milljónir.
3. Nefnd hafa verið dæmi um að verðlagning RML á vörum og þjónustu sé ekki alltaf í samræmi við raunverulegan kostnað. Hefur verið nefnt dæmi af svonefndri „örmerkjabók“ í því sambandi. Slík bók kostar 7000 krónur hjá RML, bók með 20 eyðublöðum í þríriti. Hefur verið bent á að bók með 50 eyðublöðum af reikningum í þríriti kostar kr 2.079.- í verslunum Pennans. Er þetta verð á örmerkjabókunum í samræmi við framleiðslukostnað þeirra?
Svar: Inni í verði á örmerkjabókum er bæði framleiðslukostnaður við þær og vinna við skráningu samkvæmt verðskrá RML. Sá sem kaupir örmerkjabók greiðir því fyrirfram fyrir skráningavinnuna sem er framkvæmd þegar blöðunum er skilað inn, verð á hverju skráðu örmerki er u.þ.b 270 kr sem eru rétt um 2 mínútur, inn í því er móttaka og skjalageymsla.
4. Sama á við um eyðublöð fyrir fyljunarvottorð og stóðhestaskýrslur. Er verð eyðublaða í samræmi við raunkostnað við framleiðslu þeirra? Svar: Eyðublöð vegna fyljunarvottorða og stóðhestaskýrslur kosta ekki neitt, þau er til dæmis hægt að prenta út af heimasíðu RML. Innheimta vegna þessa er vegna vinnu við skráningar inn í Worldfeng.
5. Kæmi til greina að aðrir aðilar fái leyfi til að gefa út slíkar bækur?
Svar: Vinnureglur vegna skýrsluhalds eru stöðugt í þróun með hagsmuni skýrsluhaldsins og ræktunarstarfsins að leiðarljósi. Við erum þó bundin merkingareglugerð hvað þetta varðar.
6. Hvað er því til fyrirstöðu að eigendur hrossa sem aðgang hafa að gagnagrunninum WorldFeng geti sjálfir fært inn upplýsingar um til dæmis fædd og merkt folöld?
Svar: Hesteigendur geta nú þegar grunnskráð sín folöld í gegnum heimarétt í Worldfeng hafi fyljun verið skráð í gegnum fyljunarskráningu eða með stóðhestaskýrslu. Eingöngu þarf að skila inn örmerkjablaði til RML.
7. Hestafréttum hafa ítrekað borist ábendingar um að svo virðist sem RML beiti „refsigjöldum“ í starfsemi sinni. Til dæmis ef hestamenn skila ekki inn örmerkjaupplýsingum um merkt hross innan einhverra tímamarka eða ef ekki hefur áður farið fram skráning á stóðhestahaldi. Eru einhver málefnaleg rök fyrir því að beita slíkum gjöldum? Er þetta ekki í raun skattlagning sem aðeins ríkið hefur leyfi til að leggja á og þar með brot á lögum?
Svar: Innheimt er fyrir skráningar skýrsluhaldsgagna í öllum búgreinum. Þar sem grunnskráningar á folöldum skiluðu sér í sumum tilfellum mjög seint og löngu eftir þann tíma sem gefinn er upp í reglugerð um einstaklingsmerkingar var ákveðið að fella tímabundið niður innheimtu af þeim grunnskráningum sem kæmu inn á réttum tíma til að hvetja menn til að skila þessum upplýsingum inn. Hér er því ekki um „refsigjald“ að ræða heldur niðurfellingu á gjöldum fyrir þá sem skrá á réttum tíma.
Það er hagur hrossaræktarinnar að skráningar skili sér á réttum tíma og að farið sé eftir skráningarreglum til að viðhalda þeirri stöðu sem Worldfengur hefur sem rafrænt hestavegabréf hérlendis.
8. Að lokum er spurt hvort núverandi verðskrá sem gefin var út 1. maí 2019 muni gilda óbreytt fyrir árið 2020 eða hvort von sé á hækkunum?
Svar: Það hefur verið sótt um heimild til breytingar á verðskrá vegna 2020 en enn hefur ekki svar borist frá ráðuneytinu og því ekki ljóst á þessu stigi hvernig það fer. Hækkun á sýningagjöldum mun fyrst og fremst koma til móts við hækkun á vallargjöldum sem hafa ekki breyst í nokkur ár. Tekið skal fram að sýningargjöld hafa verið óbreytt síðustu 2 ár og RML hefur lagt um 11 milljónir með sýningarhaldinu á síðustu tveim árum.