Uppskeruskráning í Jörð.is

Nú þegar slætti er endanlega lokið er upplagt að skrá uppskeru sumarsins í Jörð.is. Skráningin býður einnig upp á útprentun á gæðastýringareyðublöðum sauðfjárræktarinnar. Þar að auki geta þeir sem skila forðagæsluskýrslu rafrænt nú í haust fært uppskerugögn úr Jörð.is yfir í hana með einföldum hætti.

Ýmsa aðra hagræðingu má hafa af Jörð.is og eru ráðunautar RML tilbúnir að veita alla þá aðstoð sem bændur þurfa. Til dæmis hafa verið haldin námskeið í Jörð.is undanfarin ár með þátttöku Landbúnaðarháskóla Íslands. Síðastliðinn vetur voru haldin tíu námskeið og sóttu u.þ.b. 100 bændur þau námskeið. Einnig væri hugsanlegt að halda styttri námskeið eða veita leiðbeiningar um sérstakar skráningar t.d. vegna uppskeruskráningar nú í haust. Mikilvægt er að þeir sem eru notendur og greiða fyrir árgjald af forritinu fái leiðbeiningar til að forritið nýtist þeim sem best.

Þeir, sem hafa áhuga á að komast á námskeið í Jörð.is eða vantar einhverskonar aðstoð, eru hvattir til að hafa samband við Sigurð Jarlsson ráðunaut RML í síma 516 5042 eða í gegnum tölvupóst á netfangið sj@rml.is.

Sjá nánar: Leiðbeiningar í Jörð.is 

sj/okg