Upplýsingar um forystufé hafa verið uppfærðar í Fjárvís

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að ýmsu endurbótum á skýrsluhaldsforritinu Fjárvís. Eitt af því sem hefur verið gert er að styrkja utanumhald um forystufjárstofninn í landinu. Eins og kunnugt er hefur um árabil verið hægt að sérmerkja forystukindur og forystublendinga inn í Fjárvís og koma þeir einstaklingar sem eru 50% eða meira af forystuættum ekki inn í uppgjör afurða og kjötmats ár hvert. Það sem ekki hefur verið virkt hingað til er að afkvæmi kinda af forystuættum fái reiknað sitt forystuhlutfall út frá upplýsingum um foreldrana þannig að ekki þurfi að sérmerkja hvert ásett forystulamb. Bændur hafa ekki geta sérmerkt sitt forystufé heldur hafa ráðunautar hjá RML skráð inn merkingar á því samkvæmt óskum þar um. Nú á sú vinna að heyra sögunni til og eru öll lömb sem fædd eru nú í vor og eru af þekktum forystufjárættum komin með reiknað hlutfall út frá fyrirliggjandi upplýsingum um foreldra þeirra.

Þá er komið að eigendum þessara kinda að fara yfir hvort rétt forystuhlutfall hefur reiknast hjá hverjum og einum grip. Í dökkgrænu línunni efst á forsíðu Fjárvís er valmöguleikinn yfirlit.

Ef smellt er á hann opnast margir valmöguleikar en sá efsti ber yfirskriftina Forystufé. Með því að klikka á hann opnast forystufé yfirlit en það er tómt þar til búið er að biðja kerfið um að leita.

Sjálfgefin stilling er að leitað sé í lifandi fé enda er það sá hópur sem mestu máli skiptir að leiðrétta forystuprósentu hjá, sé þess þörf. 

Með því að hafa ekkert í Lífstaða koma fram allir gripir af forystuættum bæði lífs og liðnir. Birt er forystuprósenta alveg niður að 5% af forystuættum. Ef smellt er á númer grips kemur upp ættartré sem sýnir eingöngu hvernig þessi kind rekur sig í þekkt forystufé.

Þeir forystuhrútar sem hafa verið á stöðvunum hafa allir verið festir inni með 100% forystuhlutfall nema Tígull 04-939 sem var af aðeins blönduðum uppruna. Afkvæmi stöðvahrútanna reiknast út frá þeirri prósentu sem búið er að festa á þá. Það þarf að laga eitthvað af þeim gripum sem þeir eru komnir út af, svo þessi forystuættartré birtist alveg rétt. Þær lagfæringar munu hins vegar ekki hafa áhrif á forystuprósentu afkvæma stöðvahrúta þar sem búið er að festa hana hjá þessum hrútum. Ef ætlunin er að skoða fyrirliggjandi ættartré í heild sinni þarf að fletta gripnum upp í gripaleitinni með hefðbundnum hætti.

Nú þegar þessi útreikningur á forystuhlutfalli frá foreldrum til afkvæmis er orðinn virkur er ætlunin að gera átak í að fara yfir reiknað hlutfall hjá hverjum grip og því er nú leitað til eigenda forystufjár að fara yfir allar upplýsingar um þá lifandi gripi sem birtast í Forystufé- yfirlit á þeirra búi. Það er ekki síður mikilvægt að láta vita af forystufé sem enn stendur utan skýrsluhalds af einhverjum ástæðum. Oft er ástæðan sú að eigendur telja að forystuféð dragi niður meðaltöl í ársuppgjöri búsins. Þær áhyggjur eru alveg ástæðulausar, því þegar komið er reiknað forystuhlutfall á viðkomandi kindur verður farið yfir uppgjör og þau uppfærð þannig að hálfblendingar eða meira falla út áður en meðaltöl búsins eru reiknuð.

Allar óskir um leiðréttingar skal senda á forystufe@rml.is Jafnframt er mjög æskilegt að fá svör frá þeim sem eru alveg sáttir við upplýsingarnar um sitt forystufé. Fjórir ráðunautar hjá RML hafa aðgang að þessu netfangi og vinna úr þeim upplýsingum sem berast frá bændum. Að einhverjum tíma liðnum verður farið í að hafa samband við þá þekktu eigendur forystufjár sem ekki hafa brugðist við kalli um að yfirfara upplýsingar um sína hjörð og senda svar. Stefnt er að því að þessari leiðréttingavinnu verði að mestu lokið upp úr næstu áramótum. Við væntum þess að eigendur forystufjár bregðist bæði skjótt og vel við þessum endurbótum í skýrsluhaldi um forystufjárstofninn í landinu. Verkefnisstjóri við þessa yfirferð er Árni B. Bragason ráðunautur í sauðfjárrækt.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá forystuána Háleit 17-728 nýborna. Lömbin eru undan Frakka 20-895 frá Holti í Þistilfirði. Háleit er til heimilis að Þorgautsstöðum 2 í Hvítársíðu og er hún dóttir Unga 13-938 frá Sandfellshaga 1 í Öxarfirði.

/okg