Umsóknir um styrki vegna afkvæmarannsókna í sauðfjárrækt

Afkvæmarannsóknir á hrútum, með tilliti til kjötgæða hafa verið stundaðar meðal bænda með góðum árangri í áraraðir. Styrkur til slíkra rannsókna er veittur af fagfé sauðfjársamningsins og gilda sömu reglur í haust líkt og síðustu ár. Skilyrðið er að á búinu séu 8 hrútar að lágmarki í samanburði þar sem hver hrútur á 8 ómmæld afkvæmi af sama kyni og 15 lömb með sláturupplýsingar. Styrkurinn er 10.000 kr. og verður hann greiddur beint til bænda. Líkt og fjallað var um í Bændablaðinu fyrr í haust þá þurfa bændur að senda staðfestingu í tölvupósti á ee@rml.is um að uppgjöri í Fjárvís sé lokið. Miðað var við 31. október en ákveðið hefur verið að framlengja þann frest til 15. nóvember nk.

Til að gagna frá þessu í Fjárvís.is er valin „afkvæmarannsókn“ og síðan er annars vegar gert upp fyrir lifandi lömb og hins vegar út frá kjötmatsniðurstöðum. Þegar hafa þó nokkrar staðfestingar borist, ýmist beint frá bændum eða í gegnum ráðunauta. Bændur geta vissulega leitað hjálpar hjá ráðunautum RML við að ganga frá þessu eða ræða niðurstöður en ef bændur óska eftir því að ráðunautar sjái alfarið um að ganga frá afkvæmarannsókninni fellur það undir gjaldskylda vinnu. Lykilatriðið er að menn hafi af þessu gagn, skoði gögnin og túlki þau útfrá þeim forsendum sem að baki liggja. Hér má finna leiðbeiningar um hvernig afkvæmarannsókn er gerð upp.

ee/eib