Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Við hjá RML fengum eftirfarandi pistil frá Ríkharð Brynjólfssyni prófessor hjá LbhÍ, þar sem hann fer m.a. yfir niðurstöður tilrauna á grænfóðuryrkjum frá síðasta sumri.
Grænfóðurrækt er fastur liður í búskap margra bænda. Tegundaúrval er nokkuð og um eiginleika þeirra má benda á fyrirlestur Eiríks Loftssonar ráðunauts RML í veffræðslu LK. Rýgresi og vetrarrepja bera höfuð og herðar yfir aðrar tegundir. Um innflutning grænfóðurfræs eru til góðar skýrslur í ársskýrslum MAST. Á 1. mynd er sýnt hvernig innflutningur tegunda hefur sveiflast undanfarin ár, reiknað í hektara miðað við ráðlagða skammta, 10 kg/ha af repju, 35 kg/ha af rýgresi, 200 kg/ha af höfrum og ertum en 1 kg/ha af næpu. Sveifla milli ára er mjög mikil en það skýrist trúlega að einhverju leyti breytingar á birgðastöðu. Hlutfall sumar- og vetrarrýgresis sveiflast nokkuð milli ára en er af sömu stærðargráðu. Á heimasíðu RML er listi yfir stofna sem í boði eru: Sáðvara
Í tilraun á Hvanneyri síðastliðið sumar voru allir þessi stofnar prófaðir, nema Jivet og Akela.
Eftir sáningu 7. maí og slátt 16. júlí (69 vaxtardagar) var sumarrýgresi hálfskriðið og uppskera stofnanna mjög svipuð, um 40 hkg þe/ha, Barspectra þó ívið best.
Vetrarrýgresi var slegið 30. júlí (83 vaxtardagar), þá talsvert skriðið eftir því sem gerist með vetrarrýgresi og uppskeran minnst af Dasas (46 hkg þe/ha) en mest af Barmultra (53 hkg þe/ha).
Í landinu var talsvert af illgresi (skurfu). Sumarrýgresi náði vel að kæfa hana, og greinilega átti Swale erfiðast. Vetrarrýgresið hafði á endanum einnig betur í glímunni við skurfuna Dasas þó lakast.
Repjan kæfði illgresið fljótt og örugglega. Þann 16. júlí var ekki sýnileg stöngullenging en þegar hún var slegin 30. júlí var Barcoli orðið mun hávaxnara en Delta og Hobson. Uppskera Barcoli og Hobson var 57 hkg þe/ha en Delta 52 hkg þe/ha.
En uppskera repju með slætti segir ekki alla söguna. Við slátt voru tekin sýni til hlutunar í líffæri. Sýnin varð að frysta og það gerði hlutunina nokkuð erfiðari, einkum milli blaða og blaðstilka.
Stönglar | Blaðstilkar | Blöðkur | |
Barcoli | 58 | 19 | 23 |
Dleta | 55 | 25 | 20 |
Hobson | 35 | 34 | 31 |
Samkvæmt beitarathugunum á Hvanneyri nýta kýr á randbeit nær eingöngu blöðkurnar og þar var beitarnýting á Hobson betri en annarra stofna.
Nefna má að í tilrauninni voru einnig hafrar (Belinda), þeir voru slegnir 30. júlí, um leið og vetrar- rýgresi og repja. Uppskera þeirra var 5.150 kg þe/ha, svipað og af vetrarrýgresi eftir sama vaxtartíma.
Seinni sláttur rýgresis var ekki tekinn fyrr en 26. september, fyrr var eiginlega ekki fært um landið. Þá var sumarrýgresi orðið mjög gróft og uppskera kringum 50 hkg þe/ha en vetrar-rýgresi um 33 hkg þe/ha.
Jivet var í tilraun á Möðruvöllum síðastliðið sumar og stóð sig líkt og annað sumarrýgresi. Akela var í tilraun á Hvanneyri fyrir nokkrum árum. Það er (eða virtist verða) dvergafbrigði af repju og stönglar þess lengdust ekkert svo uppskera var nær eingöngu blaðstilkar og blöðkur. Engu að síður nýttist það ekki vel á beit og augljóslega mjög viðkvæmt fyrir illgresi.
Hér með er mynd sem sýnir innflutning grænfóðurfræs undanfarin ár. Magn hverrar tegundar er hér sýnt sem ha en miðað er við ráðlagt sáðmagn. Sveiflur milli ára eru gríðarlegar en endurspegla væntanlega birgðabreytingar.
Þá er hér mynd þar sem aðeins er tekið með rýgresi (sumar- og vetrar) og vetrarrepju seinustu 7 árin. Rúnað af milli ára eru þetta um 5.000 ha á ári.
Þá eru hér að lokum myndir sem sýna annars vegar uppskeru repjustofna við randbeit á mismunandi tíma (sáð var 13. maí). Svörtu línurnar sýna uppskeru með slætti fyrir beit en rauðu línurnar mismun þeirrar uppskeru og þess sem mældist með slætti eftir beit. Í byrjun meðan uppskeran er nær eingöngu blöðkur hreinsuðu kýrnar allt upp en nýtingin verður lakari og lakari eftir því sem á líður. Þegar slegin uppskera fyrir beit var borin á fóðurgang var hinsvegar allt étið upp.
bpb/okg