Tíukaffið komið á netið

Til að missa ekki niður kaffistofustemminguna í samkomubanni var brugðið á það ráð að færa tíukaffið hjá starfsmönnum RML yfir á samskiptaforritið Teams. Þar hittast nú þeir sem vilja af starfsmannahópnum „life“ á netinu og spjalla og skiptast á bröndurum og góðum sögum eins og gert er á öllum góðum kaffistofum. Í morgun var slegið upp keppni um flottasta kaffibollann og upp kom hugmynd um að hafa náttfatakeppni í næsta kaffitíma. Jóna Þórunn á Suðurlandi er talin sigurstrangleg í kaffibollakeppninni með Ford dráttarvélakaffibollanum.

Starfsmenn RML eru 53 talsins og starfa á 13 starfsstöðvum vítt og breitt um landið. Frá stofnun RML hafa starfsmenn notað fjarfundarbúnað mikið og unnið saman í gegnum Teams í verkefnum og geta tengst viðskiptavinum á fundum. Þessi reynsla er að skila sér vel á þessum óvissutímum, kaffitíminn okkar lyftir andanum og léttir lund.

Góð kveðja til allra sem þetta lesa frá starfsfólki RML.

hh/okg