Tilraun með kyngreint nautasæði

Í desember s.l. komu sérfræðingar frá STgenetics og kyngreindu sæði úr íslenskum nautum í fyrsta skipti í sögunni. Tekið var sæði (X-sæði) úr fimm nautum sem koma nú til notkunar. Jafnhliða var tekið sæði úr Angus-nautinu Lunda til kyngreiningar og þá í hina áttina þannig að þar er um ræða sæði sem gefur nautkálfa (Y-sæði). Kyngreint sæði úr Lunda verður til almennrar notkunar utan tilraunar.

Nú er þetta sæði að koma til dreifingar með þeim hætti að gerð verður tilraun til þess að sjá mun á fanghlutfalli hefðbundins og kyngreinds sæðis. Við blöndun, meðhöndlun og frystingu á þessu sæði var hverri sæðistöku skipt í tvennt, annar hlutinn var frystur á hefðbundinn hátt en hinn hlutinn kyngreindur og frystur. Sæðinu verður dreift með þeim hætti að ekki liggur fyrir hvort er hvað og er þetta gert til þess að fá sem marktækasta niðurstöðu á árangurinn. Þannig á að vera tryggt að val á gripum og meðhöndlun sæðisins mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.

Sæðinu verður dreift um allt land með þeirri undantekningu að Vestfirðir, Vopnafjörður, A-Skaft. og Skaftárhreppur verða utan tilraunar. Ástæðan er sú að á þessum svæðum er fá bú og því gætu búsáhrif haft áhrif á niðurstöður. Á þessi svæði verður eftir sem áður dreift kyngreindu sæði, þ.e. þeim skömmtum sem voru umfram 500 úr hverju nauti. Þannig munu allir kúabændur eiga kost á að nota þetta sæði ef vilji er til.

Þau naut sem verða í dreifingu með þessum hætti eru eftirtalin; Snáði 23017, Stimpill 23020, Maddi 23022, Sokkur 23023 og Abraham 23030. Upplýsingar um þessi naut er að finna á nautaskra.is og í næsta Bændablaði.

Til þess að árangur verði sem bestur er mjög mikilvægt að samvinna allra sem að koma sé sem mest og best. Sá þáttur sem mest snýr að bændum er val á þeim gripum sem sæddir verða með þessu sæði. Þar þarf að horfa til nokkurra atriða og hafa í huga að þetta sæði er töluvert dýrara í framleiðslu en hefðbundið sæði.

Við notkun á sæði í tilrauninni skal ganga út frá því að um kyngreint sæði sé að ræða við allar sæðingar og haga vinnubrögðum samkvæmt því. Hér á eftir er örfáir punktar sem hafa þarf til hliðsjónar:

  • Frá uppþíðingu mega ekki líða meira en 5 mínútur. Þetta þýðir að þeir gripir sem sæða á þurfa að vera tilbúnir til sæðingar þegar frjótæknir kemur á búið. Það er ekki í boði að bíða komu frjótæknis með að sækja gripina í hjörðina.
  • Kjörtími sæðinga með kyngreindu sæði er nálægt 6 klst. seinni en venjan er. Það þýðir að í sumum tilvikum er betra að fresta sæðingu um einn dag frá því sem annars væri gert.
    Til að geta áætlað með þokkalegri vissu hvar gripurinn er staddur er skilyrði að hann sýni glögg beiðsliseinkenni. Gripir sem sýna ógreinileg merki um beiðsli ætti ekki að sæða með kyngreindu sæði.
  • Hvaða gripi á að sæða: Kvígur og kýr á 1.-4. mjaltaskeiði.
  • Tími frá burði: Mælt er með að hefja ekki sæðingar fyrr en að liðnir eru a.m.k. 60 dagar frá burði. Kýrnar þurfa að vera komnar í jákvætt orkujafnvægi og farnar að ganga með reglulegum hætti. Þetta á einkum við 1. kálfs kvígur og kýr í hárri nyt.
  • Uppbeiðsli: Takmarka skal sæðingar með kyngreindu sæði við 1. og 2. sæðingu. Þetta á við um alla gripi.
  • Heilsufar eftir burð: Ekki skal nota kyngreint sæði á gripi sem á einhvern hátt hefur orðið misdægurt um eða eftir burð. Þetta geta verið gripir sem áttu erfiðan burð, sýna merki um viðvarandi legbólgu (óhrein útferð lengur en 3-4 vikur eftir burð), fengu efnaskiptasjúkdóm (t.d. doða eða súrdoða) og/eða hita, t.d. vegna bráðrar júgurbólgu.

Tilraunin mun að öllum líkindum standa yfir í nokkrar vikur en henni lýkur þegar umrætt sæði er uppurið. Þá þarf að bíða niðurstaðna um ekki uppbeiðsli sem á að liggja fyrir 56 dögum eftir síðustu sæðingu með þessu sæði. Á grundvelli niðurstöðunnar verður tekin ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort hefja á kyngreiningu íslensks nautasæðis með reglubundnum hætti. Erlendar niðurstöður sýna 0-10% lakara 56 daga ekki uppbeiðsli með kyngreindu sæði samanborið við hefðbundið sæði. Við getum því sagt sem svo að allt innan þeirra marka teljist ásættanlegt.

Gangi allt saman upp og árangur verður ásættanlegur gæti reglubundin kyngreining hafist síðar á þessu ári eða einhvern tímann á tímabilinu júní-september. Nákvæmari tímasetningu er erfitt að gefa upp á þessu stigi enda byggir hún á árangri og því hvenær STgenetics-rannsóknastofan er laus til afnota.