Til knapa og eigenda kynbótahrossa á LM 2014

Kynbótahross sem náðu lágmarseinkunnum fyrir landsmót í vorsýningum hafa aldrei verið fleiri en nú. Rétt til að koma fram á kynbótabrautinni hafa nú 281 hross en 255 hafa boðað komu sína á Gaddstaðaflatir. Til þess að bregðast við þessum mikla fjölda hefur reynst nauðsynlegt að bæta sunnudeginum 29. júní við, sem dómadegi. Enn fremur reynist ekki dagskrárrými fyrir áður áætlaða kynningu á hrossum sem ekki ná verðlaunasæti og er sá liður því einfaldlega felldur niður að þessu sinni.

Meðfylgjandi eru vinnuskjöl til hagræðingar fyrir alla aðila, ætluð sem viðbót og ítarefni við dagskrá mótsins. Sjá dagskrá á slóðinni hér  http://www.landsmot.is/static/files/2014/dagskra_final_28062014_isl.pdf. Að venju eru kynbótahross á landsmóti dæmd samkvæmt stafrófsröð í skrá. Þar sem það hittir illa á einstaka knapa er brugðist við með tilfærslu svo að alltaf eru a.m.k. þrjú hross (u.þ.b. 30 mín.) á milli sýninga sama knapa.

Öll dagskrá kynbótageirans frá sunnudeginum 29. júní til föstudagsins 4. júlí verður á stóra vellinum (Kynbótavöllur). Frá og með laugardegi (5. júlí) verða dagskrárviðburðir kynbótahrossanna á Gæðingavellinum v. reiðhöll.

Sérstakt teymi dýralækna mun annast heilbrigðisskoðun fyrir allar innkomur kynbótahrossa eins og tíðkast hefur fyrir keppnishross (fyrir dóm, fyrir yfirlit, fyrir verðlaunaveitingu....). Öllum hrossum í kynbótahluta mótsins ber að undirgangast þessa skoðun og gildir sama um þau sem fylgja feðrum í afkvæmasýningum. Rétt er því fyrir knapa og umráðamenn að skipuleggja tíma sinn vel svo að heilbrigðisskoðunin verði ekki flöskuháls í rennslinu. Dýralæknateymið mun hefja störf strax á sunnudagsmorgni þann 29. júní kl. 7:00, í reiðhöllinni, og þar verður opið til kl. 19:00 fyrstu daga mótsins.

Hófa-/skeifnamælingar fyrir dóm, eru framkvæmdar af sýningarstjórum á stóra vellinum (Kynbótavelli). Þar gildir hið sama að betra að vera þar tímanlega - áður en kemur að dómi. Hefðbundin athugasemdaskráning (A/B-athugasemdir) er einnig framkvæmd af sýningarstjórum.

Svo sem verið hefur verða 10 hross verðlaunuð í hverjum aldursflokki á LM2014 (sjá mótsdagskrá). Nýr dagskrárviðburður á laugardagsmorgni þann 5. júlí (kynning á úrvali kynbótahrossa) er í mótun á meðan dómum vindur fram en þar hafa dómarar í hyggju að kynna sérstaklega hross með einstakar úrvalseinkunnir fyrir tiltekna eiginleika í hæfileikadómi.

Með von og vissu um glæsilegan viðburð, LM2014.

Pétur Halldórsson, sýningarstjóri kynbótahrossa, petur@rml.is, S: 862-9322.

Sjá nánar

Sunnudagur 29. júní 

Mánudagur 30. júní 

Þriðjudagur 1. júlí 

Miðvikudagur 2. júlí 

Fimmtudagur 3. júlí 

Dagskrá LM 2014 

ph/okg