Þrjár ARR kindur bætast í hópinn á Þernunesi

Í dag komu niðurstöður úr arfgerðargreiningum á sýnum 95 kinda í Þernunesi. Þrjár ær bættust nú í hóp „gullklumpanna“ sem bera ARR arfgerðina. Eru því alls 9 kindur á bænum sem vitað er að bera þessa arfgerð. Tvær af þeim ám sem nú greindust eru hyrndar og eru þær því fyrstu hyrndu kindurnar sem finnast með ARR hér á landi. Allar eru þær arfblendnar fyrir arfgerðinni.

Í síðustu sýnatöku í Þernunesi voru teknir fyrir elstu árgangarnir (allar ær fæddar 2014 og eldri), allir hrútar og valdar ær sem tengdust þeim sem áður höfðu verið greindar með ARR. Tvær af þeim sem nú greinast (þær hyrndu) eru fremur fjarskyldar hinum og engin þessara þriggja kinda er tengd Njálu frá Kambi.

Kindurnar þrjár eru:
- Friðsemd 14-431, hvít, hyrnd. Faðir Botni 13-026 frá Þernunesi og móðir Sólfríð 12-256, Þernunesi.
- Sæný 14-480, hvít, hyrnd. Faðir Njörður 12-019 frá Þernunesi og móðir Sæunn 09-919, Þernunesi.
- Móða 16-658, grámórauð, kollótt. Faðir Júlíus 15-003 frá Þernunesi og móðir Grákolla 13-366, Þernunesi.

Haldið verður áfram að kortleggja ARR arfgerðina í Þernunesi. Þessi vinna er partur af því rannsóknarverkefni sem RML vinnur í samstarfi við Keldur og Karólínu o.fl.

Þá er í gangi umfangsmikið átaksverkefni á vegum RML í arfgerðargreiningum og á næstu vikum og mánuðum verða tekin sýni úr meira en 20.000 kindum vítt og breytt um landið. Fyrstu sýni úr því verkefni eru farin í greiningu en engar niðurstöður liggja fyrir. Þegar sú sýnataka verður afstaðin ætti að fást ágæt mynd á það hversu ARR arfgerðin er útbreydd í stofninum – eða hvort Þernunes sé eina uppsprettan.