Þjónusta við notendur dkBúbótar efld

Jón Baldur Lorange og Jóhanna Lind Elíasd.
Jón Baldur Lorange og Jóhanna Lind Elíasd.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Tölvudeild Bændasamtakanna (BÍ) hafa gert með sér samkomulag um notendaþjónustu vegna dkBúbótar. Jóhanna Lind Elíasdóttir, ábyrgðarmaður rekstrar hjá RML, og Jón Baldur Lorange, sviðsstjóri Tölvudeildar BÍ, handsöluðu samkomulagið fyrir skömmu. Samkomulagið felur í sér að notendur dkBúbótar geta hringt í þjónustunúmerið 563-0368 á virkum dögum ef þá vantar aðstoð vegna forritsins. Sett hefur verið saman teymi, skipað starfsfólki tölvudeildar BÍ og RML, sem sinnir notendaþjónustu sem er innifalin í árgjaldi að dkBúbót.

Í notendaþjónustu felst símsvörun á milli 10.00 og 16.00 alla virka daga þar sem aðstoð fæst við að greina eðli vandamála sem upp kunna að koma. Innifalin í árgjaldi er einnig lausn á vandamálum sem koma upp ef villur koma upp í forritinu sjálfu. Þjónustan er veitt í gegnum síma en einnig getur þjónustufulltrúi yfirtekið tölvu notanda til að leysa vandamálið hratt og örugglega. Notendum er bent á að unnt er að senda inn þjónustubeiðni í gegnum www.bondi.is undir Tölvuþjónusta og forrit og velja þar "Þjónustubeiðni-bændur". Notendur eru hvattir til að nýta sér þessa leið því allar beiðnir fara inn á þjónustuborð dkBúbótar án tafar. Rétt er að taka fram að í notendaþjónustu felst ekki aðstoð vegna bókhaldslegra atriða eða leiðréttinga á færslum sem rekja má til vankunnáttu í bókhaldi. Kennsla á forritið er sömuleiðis ekki innifalin en bent er á námskeið sem verða í boði RML, búnaðarsambanda og LbhÍ. Þá skal bent á rafræna handbók sem er aðgengileg í forritinu sjálfu undir hjálp.

gj