T137 finnst á Syðri-Haga, Árskógsströnd

Í dag komu niðurstöður úr arfgerðargreiningum á nokkrum kindasýnum sem sett höfðu verið í forgang. Sýnin voru frá Þernunesi, Stóru-Hámundarstöðum og Syðri-Haga. Þrjár kindur greindust með T137, allar á bænum Syðri-Haga á Árskógsströnd. Þessar þrjár kindur eru allar skyldar, tvær af þeim eru systur undan hrútnum Jerk 11-661 og er sú þriðja dótturdóttir hans. Kindurnar eru að mestu af heimakyni þó sæðingahrútar finnist í ættartrjám þeirra.

Bærinn Syðri-Hagi er í sömu sveit og Stóru-Hámundarstaðir þar sem nýlega hafa fundist kindur með T137. Á hvorugum þessara bæja hefur verið skorið niður vegna riðuveiki þó riðuveiki hafi verið mjög mikil á þessu svæði í gegnum tíðina. Sagnir herma að eitt af þeim ráðum sem bændur beittu á Áskógsströndinni fyrir tíma niðurskurðar var að kaupa gamlar kindur úr Svarfaðardal sem staðið höfðu af sér riðuveikina og nýta þær nokkur ár til viðbótar til að fá undan þeim líflömb. Því er ekki ólíklegt að T137 arfgerðin hafi framræktast á þessu svæði ef hún hefur virkað verndandi gegn riðu, en rannsóknir á þoli hennar eiga eftir að leiða það betur í ljós.