Starfsmenn RML funda á Selfossi

Hótel Selfoss
Hótel Selfoss

Fimmtudaginn 21. og föstudaginn 22. febrúar funduðu starfsmenn RML á Selfossi. Þetta var fyrsti fundurinn sem haldinn var á vegum RML þar sem allir starfsmenn fyrirtækisins hittast. Markmið fundarins var að stórum hluta að leiða alla starfsmenn saman, hittast sem ein heild.

Tíminn var vel nýttur og var fyrri dagurinn undirlagður stefnumótunarvinnu. Þar hittust faghóparnir, ræddu og skipulögðu starf sitt næstu misserin. Þar að auki var unnið að almennri stefnumótun RML þar sem mikil áhersla var lögð á að allir starfsmenn hefðu eitthvað til málanna að leggja og hefðu þarna tækifæri til þess að láta í sér heyra og taka markvisst þátt í stefnumótun fyrirtækisins.

Seinni daginn kom fólk frá Capacent í heimsókn og fór yfir vinnustaðamenningu, núverandi og ákjósanlega. Starfsmenn fengu tækifæri til að ræða niðurstöður könnunar sem hafði verið lögð fyrir þá og koma með tillögur að því hvernig hægt væri að ná markmiðum sem væru í samræmi við niðurstöður könnunarinnar, hvernig væri þannig hægt að skapa þá vinnustaðamenningu sem starfsmennirnir sjálfir vilja hafa og telja ákjósanlega.

Mat stjórnenda fyrirtækisins er að fundurinn hafi tekist mjög vel og margt áunnist. Starfsmenn eru greinilega áhugasamir og vilja taka virkan þátt í að móta nýtt fyrirtæki til framtíðar.

okg/boo