Skýrsluhald í jarðrækt er nú forsenda jarðræktarstyrkja og landgreiðslna

Athygli er vakin á því að í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins eru ákvæði um jarðræktarstyrki og landgreiðslur sem hafa ekki áður verið til staðar í samningum milli ríkis og bænda. Forsendan fyrir því að hljóta slíka styrki eru meðal annars skil á skýrsluhaldi í jarðrækt í forritinu Jörð.is.

Til ráðstöfunar er ákveðið fjármagn sem skal úthluta til jarðræktar, þ.e. nýræktar og endurræktunar á túnum, kornræktar og ræktun annarra fóðurjurta og útiræktunar á grænmeti. Landgreiðslur eru hins vegar greiddar út á ræktað land sem er uppskorið til fóðuröflunar. Fjöldi styrkhæfra hektara sem sótt verður um fyrir á landsvísu ræður síðan hve hár styrkurinn verður.

Samkvæmt reglugerð 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað skal sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur eigi síðar en 20. október en það er Matvælastofnun sem hefur með úthlutun styrkjanna að gera.

Til þess að standast skilyrði um fullnægjandi skýrsluhald í jarðrækt þarf að uppfylla eftirfarandi skráningar samkvæmt reglugerðinni. Athugið að túnkort þarf að vera til staðar í Jörð.is.

  • Nafn og/eða númer spildu.
  • Hnitsetning spildu byggð á landupplýsingakerfi (LUK) sem byggir á stafrænu túnkorti. Túnkortið á að sýna nákvæmlega þær ræktunarspildur sem eru grundvöllur að styrkjum.
  • Ræktun, þ.e. gras, grænfóður, korn, olíujurtir eða útiræktað grænmeti.
  • Tegund og yrki, þegar sótt er um jarðræktarstyrk.
  • Stærð spildu í hekturum.
  • Ræktunarár, ef ræktað síðastliðin 5 ár.
  • Heildaruppskeru í kg þurrefnis fyrir hverja spildu.
  • Heildaruppskeru í kg í útiræktuðu grænmeti.

Ráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins taka að sér að útbúa form til skráningar á ræktun og uppskeru í samræmi við fyrirliggjandi túnkort en það kann að vera ástæða til að byrja á að tryggja að túnkortið sé í samræmi við þá ræktun sem er fyrir hendi.

Einnig tekur RML að sér að skrá skýrsluhaldið fyrir þá sem þess óska.

Innheimt er fyrir þessa þjónustu samkvæmt tímaskráningu og gildandi gjaldskrá.

Þeir sem óska eftir þjónustu RML í þessum efnum ættu að huga að því fyrr en seinna svo raunhæft verði að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur innan tilsetts tíma.

Nánari upplýsingar veita Borgar Páll Bragason (bpb@rml.is) Guðfinna Lára Hávarðardóttir (ghl@rml.is) og Eiríkur Loftsson (el@rml.is), hjá RML í síma 516-5000.

Sjá nánar

Reglugerð um almennan stuðning við landbúnað

bpb/okg