Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Komin er út skýrsla um kyngreint sæði í íslenskri nautgriparækt sem var unnin af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins en Þróunarsjóður nautgriparæktarinnar styrkti verkefnið. Höfundur skýrslunnar er Guðmundur Jóhannesson. Í skýrslunni er reynt að gera grein fyrir því hvað kyngreint sæði er, hvernig staðið er að framleiðslu þess og notkun og svo möguleikum og áskorunum við að innleiða það á Íslandi. Við lestur skýrslunnar ætti mönnum fljótlega að verða ljóst að innleiðing kyngreinds sæðis er ekki einfalt verkefni og mörgum spurningum er enn ósvarað. Fyrir það fyrsta liggur ekki fyrir hvort sæði úr íslenskum nautum hentar til kyngreiningar þó ekkert bendi til þess að sú sé raunin.
Í öðru lagi er það mat sem hér er lagt á stofn- og rekstrarkostnað mjög gróft og aðeins ætlað til þess að gefa nokkra hugmynd um hvaða tölur gæti verið um að ræða. Áður en ýtt verður úr vör er nauðsynlegt að meta þennan kostnað mun ítarlegar en hér er gert. Í skýrslunni kemur fram að áætlaðaur stofnkostnaður gæti numið 182-183 milljónum króna og árlegur rekstrarkostnaður nálægt 82 millj. kr. eða um 3.300 kr. á sæðisskammt miðað við 25 þús. skammta á ári. Höfundur tekur fram að eftirspurn og notkun á kyngreindu sæði muni ráða miklu um hvert endanlegt verð á hvern skammt þarf að vera til að standa undir kostnaði.
Í þriðja lagi eru tölur um afköst tækninnar byggðar á haldgóðum upplýsingum en útfærsla á hvernig staðið verður að kyngreiningunni sjálfri í takti við sæðistöku og -dreifingu er eitthvað sem þarfnast ítarlegri skoðunar og nákvæmari útfærslu. Um er að ræða mikla fjárfestingu sem er ekki bundin við aðstöðu og tækjabúnað heldur þarf fjárfesting í þekkingu og þjálfun að koma til. Það er því mjög mikilvægt að vanda vel til verka og undirbúa verkið af mikilli kostgæfni. Húsnæði er til staðar en þekking, þjálfun og mannauður ekki.
Niðurstaðan er sú að það er vel framkvæmanlegt að innleiða kyngreiningu á nautasæði á Íslandi og það ætti ekki að raska neinum ytri framleiðsluskilyrðum í rekstri kúabúa né ræktunarstarfinu. Þvert á móti ætti nautgriparæktin að geta sótt þó nokkra hagræðingu í kyngreiningu á sæði. Skýrsluhöfundur mælir því eindregið með því að hafin verði vinna við innleiðingu kyngreinds sæðis þar sem vönduð innleiðingaráætlun, undirbúningsvinna og fjármögnun verði í algjörum forgangi, segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Sjá nánar:
Kyngreint sæði