Skil vorgagna og útsending haustbóka

RML minnir sauðfjárbændur á að skila vorgögnum í sauðfjárrækt tímanlega. Staðan á skráningum núna um mánaðarmótin er sú að skráðar hafa verið rúmlega 230.000 burðarfærslur í gagnagrunn sem eru um 60% skil m.v. þann fjölda fjár sem skráður er í skýrsluhaldið ár hvert. Almennur skiladagur skv. reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1262/2018 er 20. ágúst nk. Séu menn í vafa með hvort gögnum hafi verið skilað stendur alltaf á forsíðu Fjárvís hver síðustu gangskil eru, þ.e. vorbók eða haustbók og dagsetning.
Þeir sem skila inn vorbók til innskráningar hjá RML eru minntir á að gera það í tíma svo hægt sé að skrá þær í gagnagrunn fyrir umræddan tíma.
Útsending haustbóka hefst eftir verslunarmannahelgi og tímanleg skil eru forsenda þess að bækurnar skili sér í tíma til bænda fyrir haustið.
Kynbótamat fyrir frjósemi verður uppfært í lok ágúst þegar megnið að skráningum vorsins hafa skilað sér í gagnagrunn.

/eib