Skeljasandur og kölkun

Nú er ljóst að Sementsverksmiðjan hf. á Akranesi er hætt að framleiða sement. Verksmiðjunni mun væntanlega verða lokað í vor og þar með verður skeljasandsþrónni á Akranesi skilað til bæjarins fyrir vorið. Því liggur fyrir að ekki verður hægt að fá skeljasand á Akranesi lengur.

Björgun ehf. við Sævarhöfða í Reykjavík mun áfram verða með skeljasand til sölu þar. Verð á tonni á bíl á Sævarhöfða er frá kr. 2.250 - 3.340. Ódýrastur er óharpaður sandur og óþveginn en dýrastur er harpaður og þveginn. Harpaður sandur er auglýstur hjá Björgun á kr. 2.950 tonnið. Þá er einnig hægt að fá sekkjaðan skeljasand og er tonnið frá kr. 6.470 - 7.560. Verð á öllum flokkum er án vsk. Verð á lausum sandi miðast við að sandurinn sé kominn á bíl en verð á sekkjuðum miðast við að kaupandi sjái um að hífa sekkina á bíl. Björgun endurgreiðir kr. 815 fyrir hvern sekk sem skilað er. Þeir hjá Björgun nefna líka möguleika á afhendingu víðar um land en það eru þá dæmi sem skoða þarf í hverju tilfelli og ráðast af magni og flutningskostnaði.

Ljóst er að með brotthvarfi skeljasandsþróarinnar á Akranesi mun kostnaður við flutning á kalki hækka allnokkuð á vestanverðu landinu. Flutningsleið mun lengjast um 40 km eða um 80 km samtals (fyrir báðar leiðir) þegar flytja þarf sandinn frá Reykjavík og eins bætist við veggjald í Hvalfjarðargöng í einhverjum tilfella.

Steinull hf. á Sauðakróki hefur verið að selja skeljasand á kr. 5.300 tonnið án vsk. Aðeins er boðið upp á harpaðan og þveginn sand. Rétt er þó að undirstrika að á Sauðakróki er ekki ótakmarkað magn af skeljasandi á hverjum tíma og verulegur aðdragandi er að hverjum farmi.

Algengt verð á flutningi virðist vera nær 70.000 kr. á 100 km. Ef verðið á ódýrasta sandinum í Reykjavík er borið saman við verðið á hörpuðum og þvegnum sandi á Sauðárkróki virðast hagkvæmismörkin á flutningi skerast rétt austan við Hvammstanga.

Ljóst er að víða um land er veruleg þörf á kölkun, ekki síst þegar verið er að rækta kalkfrekar plöntur eins og t.d. bygg, fóðurkál og smára. Rétt er að vekja athygli á að víða er tiltækur skeljasandur, oft með minna kalkinnihaldi en skeljasandur úr Faxaflóa. Þó borgar sig að nota þennan sand sé um styttri vegalengdir er að ræða, jafnvel þó það þurfi að nota tvöfalt eða þrefalt magn.

Meðfylgjandi er tengill á töflu yfir efnagreiningar á skeljasandi á Vestfjörðum og Vesturlandi en það skal tekið fram að ekki er víst að sandtaka sé leyfileg á öllum þessum stöðum auk þess sem allnokkrir eru að selja sand úr sínum námum.

Sjá nánar: Skeljasandssýni á Vesturlandi og Vestfjörðum 1979-2005 

sj/okg