Sauðfjársæðingar og skráningar

Sauðfjársæðingar gengu afar vel fyrir sig þetta árið. Þátttaka var mjög góð, notkunin dreifðist vel á hrútana og veðrið var fremur hagstætt til flutninga og ferðalaga.

Sú mikla aukning sem var í þátttöku sæðinga í desember 2023 hélst að mestu en í heild sendu stöðvarnar frá sér um 44.000 skammta. Það er þó um 1.700 skömmtum minna en á síðasta ári. Hver nýtingin er á sæðinu liggur hinsvegar ekki að fullu fyrir að svo stöddu.

Hvatastyrkir vegna sæðinga
Matvælaráðuneytið mun veita hvatastyrki til þess að styðja við innleiðingu á verndandi (V) og mögulega verndandi (MV) arfgerðum. Forsendan er að bændur skrái sæðingarnar inn í Fjárvís.is (undir „skrá sæðingu“) eigi síðar en 13. janúar. Styrkurinn er 1.100 kr. á sædda á með hrút sem ber V arfgerð og 550 kr. ef sætt er með hrútum sem bera MV arfgerðir. Uppgjörið fer fram í gegnum Afurð.is.

Mest sæði sent úr Garpi 23-936
Samkvæmt samantekt um fjölda sæðiskammta sem sendir voru frá stöðvunum er það Garpur 23-936 frá Ytri-Skógum sem er á toppnum. Úr honum voru sendir 1.962 skammtar. Hann var jafnframt mest pantaður en ekki er sjálfgefið að vinsælustu hrútarnir séu jafnframt góðir sæðisgjafar. Hver raunveruleg notkun var á hrútunum kemur svo betur í ljós þegar allar skráningar hafa skilað sér. Í dag eru komnar 22.717 skráðar sæðingar í Fjárvís og stendur Garpur efstur og síðan koma þeir Faldur 23-937 frá Ytri-Skógum og Hlekkur 24-959 frá Mýrum 2.

Þeir hrútar sem mest sæði var sent úr:

  • Garpur 23-936 frá Ytri-Skógum – 1.962 skammtar
  • Faldur 23-937 frá Ytri-Skógum – 1.770 skammtar
  • Ósmann 24-968 frá Ríp – 1.765 skammtar
  • Kátur 20-905 frá Efstu-Grund – 1.720 skammtar
  • Hlekkur 24-959 frá Mýrum 2 – 1.625 skammtar
  • Elliði 24-961 frá Heydalsá 1 – 1.600 skammtar
  • Karri 24-953 frá Hreiðri – 1.495 skammtar
  • Toppur 24-974 frá Hófgerði – 1.460 skammtar
  • Hólmsteinn 24-955 frá Brattsholti– 1.435 skammtar
  • Vörður 23-940 frá Vífilsdal – 1.360 skammtar

Myndin sem fylgir er af Garpi 23-936

/okg