Sauðfjárbændur á tánum vegna slæmrar veðurspár

Veðurstofan spáir norðanhríð með slyddu eða snjókomu í 150-250 metra hæð yfir sjávarmáli á föstudag og vindhraða allt að 15-23 m/s. Á laugardagsmorgun er svo von á norðvestan 18-25 m/s á Norður- og Austurlandi og mikilli rigningu neðan við 100-200 metrum yfir sjávarmáli, en annars slyddu eða snjókomu. Bændur norðanlands eru á tánum af þessum sökum og víða er fundað í kvöld vegna þessa enda óveðrið í september í fyrra mönnum í fersku minni. Þá drápust um 3.500 kindur í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Svo gæti því farið að göngur hefjist víða strax á morgun eða 2-3 vikum fyrr en ætlað var.

Á mbl.is er haft eftir Birgi H. Arasyni bónda á Gullbrekku í Eyjafirði og formanni Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð að hann haldi að menn geti ekki leyft sér að sitja bara heima þegar spáin sé svona.

„Við tökum enga sénsa á svona löguðu. Menn eru með svona frekar neikvæðan fiðring núna, horfandi á allar veðurspár og hringjandi hver í annan fram og til baka,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grýtubakka í Höfðahverfi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við mbl.is.

Hann segir bændur í Höfðahverfi ætla að taka stöðuna eftir veðurspár kvöldsins, enn geti brugðið til beggja vona. „Það er náttúrulega bara þessi eina spá sem komin er, en spár fara að skýrast betur í kvöld. Ef það stefnir í þetta veður þá reikna ég nú frekar með því að við rjúkum af stað á morgun, margir hverjir.“, segir á mbl.is.

Eins og veðurspáin er núna er nokkuð ljóst að menn verða að bregðast við og ekki hægt annað en taka undir orð manna um að ekki sé hægt að sitja heima aðgerðalaus.

Heimild: mbl.is

/gj