Rekstur kúabúa 2021-2023

Fyrstu tölur eru nú komnar í uppgjöri á rekstri kúabúa fyrir árið 2023 og byggja þær á uppgjöri 120 kúabúa sem eru þátttakendur í samnefndu verkefni. Mjólkurframleiðsla þessara 120 kúabúa nam 46,2 milljónum lítra árið 2023 en við lokauppgjör ársins 2022 voru 176 þátttökubú sem framleiddu um 65,5 milljónir lítra.

Úrvinnsla gagna er í stöðugri þróun og lögð er áhersla á að gefa þátttökubúum sem skýrasta mynd af búrekstrinum að teknu tilliti til rekstrarniðurstöðu og upplýsinga úr Huppu og Jörð.

Í meðfylgjandi töflu eru birt meðaltöl þessara 120 búa í samanburði við öll þátttökubú undanfarin ár.

Þegar á heildina er litið þá eykst hagnaður búanna milli áranna 2022-2023 um 2 milljónir króna en þar vega mikið þær viðbótargreiðslur sem voru samþykktar í ríkisstjórn í desember 2023, ásamt afurðaverðshækkunum. Viðbótargreiðslurnar voru annars vegar 500 milljónir króna á innvegna mjólk fyrstu 11 mánuði þess árs og hins vegar viðbótargreiðslur á nýliðunar- og fjárfestingastuðning, sem reiknast að meðaltali 5,3 kr/ltr skv. uppgjöri þessara 120 kúabúa. Rétt er að benda á að sá stuðningur var greiddur á grunni umsókna um fjárfestinga- og nýliðunarstuðning og þar með mjög misjafnt hvort og hve háar fjárhæðir voru greiddar til bænda.

Breytilegur kostnaður alls hækkar lítillega á milli ára eða að jafnaði um 1 kr/ltr og vekur þar athygli að áburður lækkar um 3,1 kr/ltr, sem skýrist af lækkun áburðarverðs og minni áburðarkaupum. Fóður og aðkeypt þjónusta hækkar á móti. Framlegðarstig búanna hækkar í um 54% og hlutfall rekstrarafgangs (EBITDA) af heildarveltu fer yfir 30%.
Skuldahlutfall búanna fer lækkandi og stendur nú í 1,5 en fjármagnsliðir fara vaxandi og eru komnir í 14,7% af heildartekjum búanna og hafa hækkað verulega í krónum talið.
Þetta og margt fleira er hægt að lesa út úr meðfylgjandi töflu.

Vinna við frekari söfnun og úrvinnslu gagna er í fullum gangi. Haft verður samband við alla þátttakendur sem hafa verið með í verkefninu en jafnframt óskum við eftir nýjum þátttökubúum og tökum þeim fagnandi.

Frekari upplýsingar fást hjá m.a. Maríu Svanþrúði (msj@rml.is), Runólfi (rs@rml.is) og Kristjáni Óttari (koe@rml.is).

Rekstur kúabúa 2021-2023 - meðaltöl 120 búa