Rekstrarverkefni sauðfjárbænda „Betri gögn – bætt afkoma“

Um þessar mundir er unnið að lokauppgjöri hjá þátttökubúunum í verkefninu „Betri gögn – bætt afkoma“ fyrir rekstrarárið 2021. Þetta verkefni er byggt ofan á verkefnið „Afkomuvöktun sauðfjárbúa“ sem fór af stað veturinn 2016-2017.


Þetta verkefni byggir á samkomulagi milli Matvælaráðuneytis, RML og Bændasamtakanna um útvíkkun á upphaflega verkefninu sem nú ber yfirskriftina „Betri gögn, bætt afkoma.“ Samkomulagið byggir á þeirri hugmyndafræði sem við höfðum áður unnið eftir að viðbættri aukinni áherslu á þverfaglega ráðgjöf til þátttökubúa, þeim sem mest að kostnaðarlausu.


Verkefnið hefur vaxið og dafnað og þátttökubúum fjölgar smám saman. Þar með er það stöðugt verðmætara málgagn inn í hagsmunagæslu sauðfjárbænda um allt land og nýtist inn í endurskoðun sauðfjársamnings sem nú stendur yfir.


Niðurstöður greininga á rekstrargögnum þessara búa sýna mikinn breytileika í ýmsum þáttum rekstrarins og undirstrika mikilvægi bústjórnarlegra þátta þegar kemur að búrekstrinum. Skýrslur með niðurstöðum verkefnisins fyrir árin 2017-2019 og 2018-2020 eru aðgengilegar á heimasíðu RML þar sem helstu lykiltölur eru birtar.


Fyrstu niðurstöður ársins 2021 sýna að afurðatekjur og opinber stuðningur að viðbættu sérstöku álagi vegna heimsfaraldurs hækkuðu á milli ára en þær hækkanir gerðu tæpast annað en að halda í hækkanir á breytilegum kostnaði. Laun og launatengd gjöld miðast almennt við reiknað endurgjald og eru ekki í neinum takti við lágmarkslaun í landinu. Framleiðslukostnaður dilkakjöts hækkaði um tæp 17% milli áranna 2019-2021, reiknast hér 1.293 kr./kg. Í töflu sem fylgir hér fyrir neðan eru gögn 156 búa fyrir árin þrjú sem endurspegla 21,1% af landsframleiðslu ársins 2021. Nánar verður gert grein fyrir þessu í lokaskýrslu verkefnisins.

Betri gögn - bætt afkoma 2019-2021 - meðaltöl 31. janúar 2023 

Gagnasöfnun er í stöðugri vinnslu og stefnt er að því að greiningarskýrsla verði afhent hverju búi í febrúar fyrir rekstrarárin 2019-2021. Jafnframt er stefnt að því að hefja gagnasöfnun fyrir árið 2022 um leið og framtalsskil hefjast þannig að hægt verði að birta bráðabirgðaniðurstöður ársins 2022 fyrir vorið.


Við bjóðum öllum sauðfjárbændum sem eru með 200 vetrarfóðraðar ær eða fleiri að taka þátt í verkefninu. Þeir bændur sem hafa áhuga á að vera með eru hvattir til að hafa samband sem fyrst við einhvern af neðangreindum:


María Svanþrúður Jónsdóttir s: 516-5036 eða msj@rml.is
Eyjólfur Ingvi Bjarnason s: 516-5013 eða eyjolfur@rml.is
Guðfinna Harpa Árnadóttir s: 516-5017 eða gha@rml.is
Kristján Óttar Eymundsson s: 516-5032 eða koe@rml.is
Ívar Ragnarsson s: 516-5066 eða ivar@rml.is
Sigríður Ólafsdóttir s: 516-5041 eða so@rml.is