Reglugerð um greiðslumark mjólkur 2014

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um greiðslumark mjólkur og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 2014. Samkvæmt henni er greiðslumark mjólkur 123 milljónir lítra, sem er sjö milljón lítra aukning frá yfirstandandi verðlagsári. Frá því að framleiðslustýring var tekin upp hér á landi fyrir um þremur áratugum, hefur mjólkurkvótinn aldrei verið meiri. Rétt er að taka fram að aukning greiðslumarksins hefur ekki áhrif á stuðning hins opinbera við mjólkurframleiðsluna.

Meginbreyting greiðslumarksreglugerðarinnar frá þeirri sem nú gildir, er að framleiðsla á hverju lögbýli skal að lágmarki vera 95% af greiðslumarkinu svo það fái fullar A-greiðslur. Í greiðslumarksreglugerð yfirstandandi árs er þetta hlutfall 90%. Hækkun þessa hlutfalls ýtir undir framleiðsluaukningu, sem er afar mikilvægt í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir mjólkurafurðum. Innbyrðis skipting milli A-, B- og C-greiðslna er óbreytt frá yfirstandandi ári, sem og mánaðarleg skipting C-greiðslnanna. C-greiðslurnar skiptast á framleiðslu einstakra mánaða innan greiðslumarks eins og sjá má í töflunni hér að neðan:

Mánuður og hlutfall:
Júlí 10%
Ágúst 15%
September 15%
Október 20%
Nóvember 20%
Desember 20%

Í tilfelli C-greiðslnanna deilist greiðslumarkið einungis út á þá mánuði sem greiðslurnar ná til, júlí-desember, eins og áður.

Skipting óframleiðslutengda stuðningsins er sú hin sama og áður. Nálgast má greiðslumarksreglugerðina með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Sjá nánar:
Reglugerð um greiðslumark mjólkur og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 2014 

/gj