Prentun vorbóka og vinnsla kynbótamats

Vorbækur 2014, frá þeim skýrsluhöldurum sem hafa gengið frá uppgjöri vegna ársins 2013, munu fara í prentun núna í vikunni. Vorbækur verða aftur prentaðar um miðjan desember en síðan ekki fyrr en í janúar. Þeir skýrsluhaldarar sem vilja fá gula vorbók fyrir jól eru því hvattir til að skila skýrslunum fyrir 15. desember nk.

Kynbótamat fyrir kjötgæði, þar sem tekið er tillit til gagna frá haustinu 2013, er nú aðgengilegt á Fjárvís. Gagnasafnið var útbúið í lok október úr þeim gögnum, sem bændur höfðu sjálfir skráð í gagnagrunninn, ásamt sláturskrám frá sláturhúsum þar sem lambanúmer á vigtarseðli passaði við lambanúmer í gagnagrunni. Ekki eru í kynbótamatinu upplýsingar frá slátrun í nóvember. Kynbótamatið verður reiknað aftur í febrúar þegar allar skýrslur ársins liggja fyrir.

Kynbótamat fyrir afurðir verður ekki reiknað núna í desember eins og auglýst hafði verið. Ekki náðist sá lámarksfjöldi gripa til að byggja upplýsingar á svo réttlætanlegt væri að framkvæma aukakeyrslu. Sú vinnsla mun því bíða fram í febrúar þegar allar upplýsingar ársins munu liggja fyrir. Bændur geta engu að síður þegar þeir eru innskráðir í Fjárvís skoðað þar undir Skýrslum,  „- Sæðingahrútar - ærfeður“, upplýsingar um sæðingahrútana og hvernig dætur þeirra koma út og þar af leiðandi hvert kynbótamat þeirra stefnir. Ef dætur þeirra eru vel yfir meðallagi með afurðir (t.d. 5,8 afurðastig) og kynbótamat þeirra er lágt (≈99) eru líkur á að það muni hækka. Að sama skapi eru líkur til þess að kynbótamat hrútanna muni lækka ef það er hátt núna (≈110) en meðalafurðir dætra um meðallag, t.d. 4,9 afurðastig. 

eib/okg