Pöntun á sýnatökubúnaði og fyrirkomulag hvatastyrkja vegna riðuarfgerðargreininga 2025

Nú er frágenginn samningur milli atvinnuvegaráðuneytisins og RML um tilhögun hvatastyrkja vegna riðuarfgerðagreininga. Fyrirkomulagið er með mjög keimlíkum hætti og á síðasta ári. Helstu breytingar eru þær að nú er settur fyrirvari um hámarksfjölda greininga sem fást niðurgreiddar á hverju búi. Þá verða ekki niðurgreiddar greiningar á sýnum úr gimbrum sem eiga foreldra sem eru arfhreinir V/V, V/MV eða MV/MV (V = ARR = dökkgrænt flagg, MV =T137, C151,H154 = ljósgrænt flagg). Þær munu sjálfkrafa fá merkingu í Fjárvís (grænröndótt flagg) sem gefur til kynna að þær beri V eða MV arfgerð.

Hrútlömb:

  • Hrútlömb sem bera V eða MV arfgerð eða eru afkvæmi foreldra sem bera V eða MV arfgerð geta hlotið niðurgreiðslu. Ekki skiptir máli hvort foreldrar séu arfhreinir eða arfblendnir.
  • Hámarksfjöldi niðurgreiddra sýna úr hrútlömbum er 3,5x fjöldi ásettra hrútlamba haustið 2025 á viðkomandi búi samkvæmt Fjárvís. Á riðubúum og áhættubúum er hámarkið 4x fjöldi ásettra hrúta.

Gimbralömb:

  • Gimbrar sem bera V eða MV arfgerð eða eru afkvæmi foreldra sem bera V/N eða MV/N (N stendur hér fyrir næma arfgerð og getur því verið N138, ARQ eða VRQ) geta hlotið niðurgreiðslu. Ekki eru niðurgreiddar greiningar á gimbrum undan foreldrum sem eru arfhreinir fyrir V eða MV, eða arfblendin V/MV, (þ.e.a.s. annað eða báðir foreldrar) þar sem þær gimbrar munu fá sérstaka merkingu í Fjárvís (grænröndótt flagg).
  • Hámarksfjöldi niðurgreiddra sýna úr gimbrum er 2x fjöldi ásettra gimbra haustið 2025 á viðkomandi búi samkvæmt Fjárvís.

Hvatagreiðslur vegna ásettra hrúta og viðmið um hámarksfjölda miðast við skráð gögn í Fjárvís 13. desember 2025.

Styrkir á hvert sýni úr gripum sem eru afkvæmi V gripa (ARR) verða 1.300 kr og á afkvæmi MV gripa 650 kr. Þá verða greiningar á öllum ásettum hrútum niðurgreiddar um 1.300 kr.

Fullt verð á greiningu er 1.300 kr. +vsk en hylkin þarf að kaupa sérstaklega og kostar hvert hylki 300 kr. +vsk.

Styrkupphæð er birt með fyrirvara um að heildarupphæðin sem er eyrnamerkt verkefninu dugi. Eins ef þátttaka verður minni en áætlanir gera ráð fyrir er gert ráð fyrir að hækka þök um hámarksfjölda niðurgreiddra sýna fyrir hvert bú.

Pöntun á sýnatökubúnaði
Áfram er sýnatökubúnaður seldur í vefverslun á heimasíðu RML og hylkin send bændum með pósti. Fram til 15. apríl verður þó hægt að óska eftir að sækja hylkin á starfsstöðvar RML og er þá send tilkynning í tölvupósti þegar pöntunin er tilbúin til afgreiðslu. 

Sama fyrirkomulag verður síðan á móttöku hylkja og afgreiðslu niðurstaðna og verið hefur síðasta árið. Mælst er til að bændur á Norður- og Vesturlandi skili inn sýnum á starfsstöð RML á Hvanneyri en bændur á Austur- og Suðurlandi skili þeim inn á starfsstöðina í Reykjavík.

Nánari upplýsingar um allt sem lýtur að framkvæmd arfgerðagreininga sauðfjár má finna í handbók um framkvæmd arfgerðagreininga.

Sjá nánar:
Handbók um framkvæmd arfgerðagreininga 2025

/okg