Óvissustig vegna Heklu í gildi

Hekla
Hekla

Enn er í gildi óvissustig vegna Heklu. Engir atburðir hafa átt sér stað sem benda til að eldgos sé yfirvofandi en í samráði við Veðurstofu Íslands verður áfram fylgst með þróun mála. Að óbreyttu verður staðan endurmetin í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.
Veðurstofan og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra standa vaktina yfir páskahátíðina og upplýsa almenning ef eitthvað nýtt kemur í ljós.

Ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórinn á Hvolsvelli vara áfram við ferðum fólks á Heklu á meðan að óvissustig er í gildi.

Komi til goss eða jarðskjálfta eða líti út fyrir gos í Heklu verður notast við boðunarkerfi Neyðarlínunnar sem sendir út skilaboð í alla þá farsíma sem eru tengdir farsímasendum næst fjallinu.

Ef til goss kemur er ávallt gott að vera vel undirbúinn. Það á ekki síst við um umráðamenn og eigendur þess búfjár sem ekki er á innistöðu. Á meðan og í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum var tekið saman mikið efni um t.d. viðbrögð við öskufalli. Ekki er er úr vegi að rifja upp rétt viðbrögð áður en og ef til goss kemur. Á vefjum Búnaðarsambands Suðurlands og Matvælastofnunar er þetta efni m.a. að finna og á það viljum við benda.

Sjá nánar:
Búnaðarsamband Suðurlands: Upplýsingar vegna eldgosa
Matvælaastofnun: Viðbragðsáætlanir