Öll mjólk keypt á fullu afurðastöðvarverði til áramóta

Síða 134, móðir Umba 98036.
Síða 134, móðir Umba 98036.

Fyrirtæki í mjólkuriðnaði hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að öll mjólk verði keypt á fullu afurðastöðvarverði fram til áramóta. Að því er fram kemur í tilkynningunni hefur orðið veruleg söluaukning á smjöri, rjóma, ostum, drykkjarmjólk og fleiri afurðum. Mjólkursamsalan býst við að þessi þróun haldi áfram næstu vikur og fyrirtæki í mjólkuriðnaði hafa því ákveðið að kaupa alla framleiðslu bænda fullu afurðastöðvaverði frá októberbyrjun til áramóta. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa einnig lagt til að greiðslumark næsta árs, sem er samanlagður framleiðsluréttur bænda fyrir innanlandsmarkað, verði aukið úr 116 milljónum lítra í 123 milljónir lítra.

„Íslenskir neytendur eru að auka neyslu mjólkurafurða og það er vitaskuld mikið ánægjuefni fyrir íslenska kúabændur“, segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar. „Fyrirtæki bænda í mjólkuriðnaði leggur mikið uppúr vöruþróun og vörugæðum. Árangurinn er ótvíræður í sölu á nýjum vörum og gamalgrónum vörum á borð við til dæmis smjör. Söluaukningu í smjöri milli ára má líkja við sprengingu. Þetta er mjög mikill hvati fyrir bændur og þeir hafa sett sér að mæta þessari auknu eftirspurn sem er fyrirsjáanleg áfram á næstu misserum.“

/gj