Nýir sæðingastöðvahrútar

Kornelíus frá Stóru-Tjörnum
Kornelíus frá Stóru-Tjörnum

Í sumar var safnað saman á sæðingastöðvarnar þeim hrútum sem koma nýir inn á grunni reynslu á heimabúi og fylgir hér stutt umfjöllun um þá ásamt kynbótamati.

Kornelíus frá Stóru-Tjörnum, Þingeyjarsveit. Fæddur árið 2010. Kornelíus var til heimils að Klauf í Eyjafjarðarsveit fyrstu tvö árin en kom svo aftur heim á fæðingarbú sitt. Kornelíus er sonur Grábotna 06-833 og á móðurhliðina er stutt í Stapa 01-091 sem var faðir Grána 03-957. Kornelíus er grár að lit og valinn á stöð á grunni góðrar reynslu sem lambafaðir og jákvæðrar reynslu sem ærfaðir. Kynbótamati fyrir gerð er 120 og fyrir fitu 108. Kynbótamat fyrir frjósemi er 110, fyrir mjólkurlagni 106. Heildareinkunn hans er því 110.

Kraftur frá Hagalandi, Þistilfirði. Keyptur frá Laxárdal, Þistilfirði. Fæddur árið 2011. Kraftur er sonarsonur Rafts 05-966 og móðurfaðir hans er Kjalvar 02-943. Kraftur er hvítur og hefur reynst vel sem lambafaðir heima í Laxárdal og fyrstu vísbendingar um dætur benda til að hann sé einnig öflugur ærfaðir. Kynbótamat fyrir gerð er 119 og fyrir fitu 106. Kynbótamat fyrir frjósemi er 102, fyrir mjólkurlagni 107. Heildareinkunn hans er því 107.

Jónas frá Miðgarði, Stafholtstungum. Fæddur árið 2012. Jónas rekur ættir sína til gripa á mörgum bæjum í Borgarfirði. Á föðurhliðina er hann afkomandi Flóka 08-363 frá Giljahlíð sem eitt sinn var í afkvæmarannsókn á Hesti. Móðir Jónasar er frá Örnólfsdal undan golsóttum hrút frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu sem margir þekktir sæðishrútar standa að. Jónas er golsuflekkóttur að lit og valinn á stöð vegna litar. Jónas hefur verið notaður á nokkrum búum í Borgarfirði og reynst vel sem lambfaðir. Kynbótamati fyrir gerð er 117 og fyrir fitu 94. Kynbótamat fyrir frjósemi er 120, fyrir mjólkurlagni 104. Heildareinkunn hans er því 110.

Dreki frá Hriflu, Þingeyjarsveit. Fæddur árið 2013. Dreki er sonur Grábotna 06-833 og móðurfaðir hans er Borði 08-838. Dreki er hvítur að lit og var að skila góðum afkvæmahóp haustið 2014 og státar af mjög háu kynbótamati fyrir skrokkgæði. Eins er spá fyrir dætraeiginleika góð þó lítil reynsla sé enn fengin um dætur. Kynbótamat fyrir gerð er 122 og fyrir fitu 120. Kynbótamat fyrir frjósemi er 102, fyrir mjólkurlagni 111. Heildareinkunn hans er því 111.

Tangi frá Klifmýri, Skarðsströnd. Keyptur frá Svarfhóli, Laxárdal. Tangi er sonarsonur Tenórs 08-873 og móðurfaðir hans er Dökkvi 07-809. Tangi er hvítur að lit og var að skila góðum afkvæmahóp heima á Svarfhóli haustið 2014 þar sem lærahold afkvæma voru áberandi sterk. Kynbótamat fyrir gerð er 115 og fyrir fitu 109. Kynbótamat fyrir frjósemi er 98, fyrir mjólkurlagni 106. Heildareinkunn hans er því 105.

Krapi frá Innri-Múla, Barðaströnd. Fæddur 2013. Krapi er sonur Gullmola 08-314 sem átti að koma á stöð árið 2013 en drapst þá um sumarið. Gullmoli var frá Broddanesi sonur Gullmola 05-552 sem margir sauðfjárræktendur kannast við. Í móðurætt rekur Krapi sig til Frakksonar 03-974 frá Árbæ og móðurfaðir hans er hrútur frá Skjaldfönn en foreldrar hans komu þaðan frá Hafnardal. Krapi skilaði afbragðs niðurstöðum haustið 2014 á Innri-Múla og var með hæstu hrútum landsins þegar afkvæmarannsóknir voru gerðar upp þá um haustið. Kynbótamat fyrir gerð er 123 og fyrir fitu 120. Kynbótamat fyrir frjósemi er 108, fyrir mjólkurlagni 108. Heildareinkunn hans er því 113.

Auk þessara hrúta kemur nýr forystuhrútur, Ungi frá Vestraralandi í Öxarfirði og nýr feldfjárhrútur, Lobbi frá Melhól í Meðallandi, keyptur frá Þykkvabæjarklaustri, Álftaveri.

Af þeim hrútum sem voru á stöð síðasta vetur eru 12 hrútar fallnir. Þeir eru: Kjarkur 08-840, Guffi 08-869, Ás 09-877, Guðni 09-902, Drumbur 10-918, Safír 10-932, Prúður 11-896, Putti 11-921, Bursti 12-912, Danni 12-923, Skafti 12-935 og Sproti 12-936.

Afkvæmarannsóknir fyrir sæðingastöðvarnar er svo unnar í haust á Hesti í Borgarfirði, Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum, Þóroddsstöðum í Hrútafirði, Smáhömrum í Steingrímsfirði og á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi. Hvaða hrútar koma úr þessum rannsóknum ætti að liggja fyrir á næstu tveimur vikum.

eib/okg