Nýir sæðingastöðvahrútar

Myrkvi frá Brúnastöðum
Myrkvi frá Brúnastöðum

Fyrir nokkru síðan er búið að safna í einangrunargirðingar sæðingastöðvanna þeim hrútum sem koma nýir inn á sæðingastöð á grunni reynslu á heimabúi. Að loknum afkvæmarannsóknum í haust bætast svo nokkrir hrútar við.

Af þeim hrútum sem voru í hrútaskrá síðasta árs eru 16 hrútar fallnir. Þeir eru: Púki 06-807, Stáli 06-831, Grábotni 06-833, Prófastur 06-864, Jökull 07-844, Blakkur 07-865, Knapi 07-868, Skugga-Sveinn 07-876, Borði 08-838, Forði 08-858, Ljúfur 08-859, Jóakim 08-863, Hergill 08-870, Þristur 08-872, Partur 09-882 og Svali 10-862.

Í byrjun september voru komnir 11 nýir hrútar, ekki hefur tekist að taka myndir af þeim öllum og því fylgir aðeins stutt umfjöllun um þá ásamt kynbótamati þeirra:

Bósi frá Þóroddsstöðum, Hrútafirði. Fæddur árið 2008. Af þekktum sæðingastöðvarhrútum koma þeir Lundi 03-945 og Busi 03-946 fyrir í öðrum ættlið í ættartré hans. Bósi er hvítur á litinn og valinn á grunni mjög jákvæðrar reynslu af honum sem ærföður. Kynbótamat hans er 106 fyrir fitu og 113 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 109. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 118, fyrir frjósemi 121. Heildareinkunn hans er því 116.

Guðni frá Mýrum 2, Hrútafirði. Fæddur árið 2009. Guðni er sonur Púka 06-807 og dóttursonur Lunda 03-945. Guðni er hvítur á litinn og hefur gengum árin staðið ofarlega í afkvæmarannsóknum á heimabúi ásamt því að fyrsta reynsla af dætrum hans lofar mjög góðu. Kynbótamat hans er 123 fyrir fitu og 115 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 120. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 112, fyrir frjósemi 118. Heildareinkunn hans er því 117.

Kári frá Ásgarði, Hvammssveit. Keyptur frá Valdasteinsstöðum, Hrútafirði. Fæddur árið 2010. Faðir Skugga-Sveinn 07-876. Kári var seldur sem lamb að Valdasteinsstöðum og hefur skilað góðum lambahópum þar ásamt því að vísbendingar eru um að hann sé prýðilegur ærfaðir. Kynbótamat hans er 123 fyrir fitu og 117 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 121. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 113, fyrir frjósemi 113. Heildareinkunn hans er því 116.

Myrkvi frá Brúnastöðum í Fljótum. Fæddur árið 2010. Afkomandi Sokka 07-835 sem kom á sæðingastöð frá Brúnastöðum á sínum tíma. Myrkvi er líkt og nafnið gefur til kynna svartur á litinn og hefur skilað mjög góðum afkvæmahópum heima á Brúnastöðum undanfarin ár. Kynbótamat hans er 133 fyrir fitu og 122 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 129. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 108, fyrir frjósemi 104. Heildareinkunn hans er því 114.

Salamon frá Bárði og Dóru, Grundarfirði. Keyptur frá Syðri-Bægisá, Öxnadal. Fæddur árið 2010. Salamon var seldur sem lamb norður í Öxnadal og hefur skilað öflugum lömb þar undanfarin ár. Salamon er sonur Kjarks 08-840 frá Ytri-Skógum og í móðurætt rekur hann sig í fjárstofninn frá Mávahlíð. Salamon er svartur að lit líkt og nafnið bendir til. Kynbótamat hans er 119 fyrir fitu og 141 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 128. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 103, fyrir frjósemi 105. Heildareinkunn hans er því 112.

Váli frá Gunnarsstöðum, Þistilfirði. Fæddur árið 2010. Sonur Stála 06-831. Þegar farið var að leita að efnilegum sonum Stála fyrir sæðingastöðvarnar var Váli ofarlega á blað auk þess sem fyrsta reynsla af dætrum hans lofar mjög góðu. Kynbótamat hans er 123 fyrir fitu og 127 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 125. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 107, fyrir frjósemi 109. Heildareinkunn hans er því 114.

Garri frá Stóra-Vatnshorni, Haukadal. Fæddur árið 2011. Sonur Hriflons 07-837, í móðurætt er hann kominn af Kulda 03-924. Garri vakti athygli fyrir mjög öflugan lambahóp haustið 2012 og ekki síðri afkvæmahópur kom til skoðunar undan honum núna haustið 2013. Kynbótamat hans er 123 fyrir fitu og 142 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 131. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 105, fyrir frjósemi 103. Heildareinkunn hans er því 113.

Þorsti frá Múlakoti, Lundarreykjardal. Fæddur árið 2011. Sonur Frosta 07-843 og móðurfaðir hans er Mímir 04-951. Þorsti hefur verið mikið notaður á nokkrum búum í Borgarfirði og skilað mjög öflugum lömbum alls staðar. Kynbótamat hans er 123 fyrir fitu og 118 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 121. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 106, fyrir frjósemi 110. Heildareinkunn hans er því 112.

Fjalli frá Ásgarði, Landbroti. Fæddur árið 2011. Fjalli er kollóttur. Faðir hans er Bjöggi 10-197 sem var undan hrút frá Broddanesi sem seldur var austur í Landbrot. Móðurfaðir Fjalla er Falur 03-980 og í móðurætt er hann einnig útaf Ás 04-813. Fjalli átti mjög glæsilegan lambahóp haustið 2012 og dætur hans sýndu mikla frjósemi vorið 2013. Kynbótamat hans er 88 fyrir fitu og 135 fyrir gerð. Kynbótamat fyrir kjötgæði er því 107. Kynbótamat fyrir mjólkurlagni er 100, fyrir frjósemi 99. Heildareinkunn hans er því 102.

Auk þessara hrúta er kominn nýr ferhyrndur hrútur á sæðingastöð, Höfði frá Mörtungu 2 á Síðu, fæddur árið 2011. Einnig er kominn nýr forystuhrútur á sæðingastöð, Golsi frá Gróustöðum í Gilsfirði, fæddur árið 2009.

Afkvæmarannsóknir fyrir sæðingastöðvarnar verða svo unnar á komandi vikum á Hesti í Borgarfirði, Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum, sameiginleg rannsókn á Geirmundarstöðum og Klifmýri á Skarðsströnd ásamt því að sameiginleg rannsókn með kollótta hrúta er í Miðdalsgröf og Tröllatungu í Strandasýslu.

Myndir og frekari umfjöllun um nýja sæðingahrúta bíður hrútaskrár næsta árs sem ætti að verða klár um og upp úr miðjum nóvember.

eib/okg