Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Nautaskrá Nautastöðvar BÍ fyrir veturinn 2013-2014 er nú aðgengileg á vefnum. Hún fer í prentun um áramótin og verður send til kúabænda snemma á nýju ári. Í skránni er að finna allar helstu upplýsingar um þau kynbótanaut sem verða í notkun næstu mánuði. Hún er því mikilvægt uppsláttarrit fyrir þá sem kynbæta vilja kúastofninn, hvort sem er á heimabúi eða á landsvísu.
Skráin er með líku sniði og síðustu nautaskrár hafa verið hvað varðar upplýsingar um nautin sjálf. Birtar eru upplýsingar um kynbótamat nautanna á myndrænan hátt, auk þess sem áfram er birt umsögn um dætrahópa þeirra og litalýsing. Jafnframt þessu er æviferill mæðra nautanna rakinn í stuttu máli, útlitsdómur þeirra fyrir júgur, spena, mjaltir og skap er birtur auk afurðaeinkunnar og heildareinkunnar. Þá er að finna skrá um naut sem bíða afkvæmadóms sem og þau naut sem komið hafa til framhaldsnotkunar á síðari árum. Þá má ekki gleyma því að áfram stendur til boða sæði úr holdanautum af Galloway, Aberdeen Angus og Limousin-holdakynjum.
Í skránni eru upplýsingar um18 naut sem flest eru fædd á árabilinu 2005-2008. Elsta nautið er Hryggur 05008 sem áfram er í notkun vegna hás efnahlutfalls í mjólk dætra hans og lítils skyldleika við þau naut sem mest hafa verið notuð undanfarin ár. Úr árgangi 2006 eru áfram í skránni nautsfeðurnir Baldi 06010 og Kambur 06022, þó þeir verði ekki til notkunar sem slíkir áfram. Sæði úr þeim klárast væntanlega á næstu mánuðum. Dynjandi 06024 er áfram í skránni enda styrkir hann stöðu sína og Hjarði 06029 verður áfram í notkun sem nautsfaðir enda öflugt naut. Síðasta naut árgangsins frá 2006 sem áfram verður í skránni er Víðkunnur 06034 sem var nautsfaðir en er ekki lengur notaður sem slíkur. Áfram er þó leitað nautkálfa undan honum. Úr árgangi 2007 er að finna 8 naut í skránni. Þau sex naut sem komu til notkunar s.l. sumar eru áfram með í skránni en það eru þeir Sandur 07014, Rjómi 07017, Dúllari 07024, Húni 07041, Toppur 07046 og Lögur 07047. Til viðbótar þeim koma Keipur 07054 og Blámi 07058. Að lokum koma svo þrjú naut fædd 2008. Það eru Laufás 08003, Drengur 08004 og Blómi 08017. Rétt er að taka fram að þeir hafa á bak við sitt mat algjöran lágmarksfjölda dætra með afurðaupplýsingar af ástæðum sem raktar eru í skránni.
Ef litið er til þess hverjir eru feður nautanna í skránni þá kemur í ljós að Laski 00010 á flesta syni eða fimm talsins, Fontur 98027 og Þollur 9908 eiga þrjá hvor, Stígur 97010 á tvo og Teinn 97001, Hersir 97033, Glanni 98026, Þrasi 98052 og Náttfari 00035 eiga einn hver um sig. Faðerni nautanna dreifist því á 9 naut sem er í samræmi við stefnu undanfarinna ára.
Nautsfeður að þessu sinni eru fimm talsins. Það eru þeir Hjarði 06029 frá Hjarðarfelli, Sandur 07014 frá Skeiðháholti, Húni 07041 frá Syðra-Hóli, Toppur 07046 frá Kotlaugum og Blámi 07058 frá Bláfeldi. Það er þó ítrekað að þó naut falli út af lista yfir nautsfeður viljum við samt sem áður fá áfram tilkynningar um nautkálfa undan þeim og nautsmæðrum eða efnilegum kvígum. Þetta á sérstaklega við um nautin Balda 06010, Kamb 06022, Víðkunn 06034 og Lög 07047. Þá viljum við gjarnan fá að vita um kálfa undan góðum kúm og hátt dæmdum reyndum nautum því það er mikilvægt að halda ákveðinni fjölbreytni í ætterni þeirra kálfa sem valdir eru inn á Nautastöðina.
Sambærilegar upplýsingar og í skránni er að finna á www.nautaskra.net.
Nautaskrá Nautastöðvar BÍ veturinn 2014
/Útdráttur úr inngangi Nautaskrár 2014, eftir Sveinbjörn Eyjólfsson, Guðmundur Jóhannesson og Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur.