Ný naut í notkun í september 2023

Vorsi 22002. Mynd: NBÍ
Vorsi 22002. Mynd: NBÍ

Fagráð í nautgriparækt fundaði fyrir skömmu og ákvað að setja fimm ný naut í notkun. Þrjú naut verða tekin úr notkun og fjöldi nauta í notkun því 19 næstu vikurnar. Þau naut sem koma til notkunar núna eru Vorsi 22002 frá Vorsabæ í Landeyjum undan Knetti 16006 og Grein 970 Skellsdóttur 11054, Svarfdal 22006 frá Göngustöðum í Svarfaðardal undan Tanna 15065 og Hörku 481 Lagardóttur 07047, Hnallur 22008 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi undan Skírni 16018 og Litlu-Sleggju 1669 Dropadóttur 10077, Kajak 22009 frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu undan Róðri 16019 og Smáru 315 Bambadóttur 08049 og Ægir 22010 frá Hlemmiskeiði 2 á Skeiðum undan Tanna 15065 og Sæunni 1211 Stáladóttur 14050.

Þetta eru allt ung naut, fædd 2022, og eru valin til notkunar á grunni erfðamats. Þetta er gott dæmi um hvernig erfðamengisúrvalið er farið að virka, nautin koma nú til fullra nota á þeim tímapunkti er þau hefðu verið að koma í dreifingu sem ungnaut til prófunar áður. Faðerni þessara nauta er dreift og er þar áfram unnið eftir þeirri reglu að dreifa ætterni svo sem verða má. Reikna má með að þetta verði einu synir Knattar 16006, Skírnis 16018 og Róðurs 16019 sem koma til notkunar en nokkuð víst að synir Tanna 15065 verða fleiri. Þessi naut virðast vera mjög öflug en erfðamat þeirra (heldareinkunn) er á blinu 111 til 114.

Þau naut sem tekin verður úr notkun eru Títan 17036, Tindur 19025 og Bersi 20004, ýmist vegna þess að þau eru búin að vera í notkun lengi og/eða áhugi fyrir þeim farinn að dvína.

Sæði úr þessum fimm nautum sem koma ný inn að þessu sinni mun berast í kúta frjótækna um land allt í næstu viku.

/gj