Ný lög um velferð dýra og búfjárhald


Einnig er nýlunda að öll atvinnutengd starfsemi þar sem boðin er einhvers konar þjónusta við dýr er leyfisskyld. Þarna má nefna dýraspítala, endurhæfingarstöðvar, þjálfunarstöðvar, sýningar- og keppnishúsnæði, dýragarða og hestaleigur. Nýmæli er að annað dýrahald, sem ekki er í atvinnuskyni, er einnig að hluta til leyfisskylt, en það ræðst af fjölda dýra á hverjum stað.
Nefna má að í lögunum er reynt að stemma stigu við öfgafullri starfsemi í ræktun, t.d. þegar kvendýr geta ekki fætt afkvæmi sín með náttúrulegum hætti, þannig að jafnvel þurfi að koma til ítrekaðra keisaraskurða. Samkvæmt lögunum er óheimilt að nota dýr til áframhaldandi ræktunar þar sem fyrirséð er að afkvæmi þeirra verði með sköpunargalla sem þau geta liðið fyrir. Þá er áhersla lögð á að æxlun sé óheimil þegar hún dregur úr getu dýra til að sýna eðlilegt atferli.
Í lögunum er starfsfólki Matvælastofnunar veitt heimild til að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Einnig er Matvælastofnun veitt heimild til að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin ef beita þarf þvingunarúrræðum. Matvælastofnun er ekki heimilt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns nema að fengnum dómsúrskurði.
Þá er í lögunum að finna ákvæði um dagsektir og niðurfellingu á opinberum greiðslum í landbúnaði vegna brota á ákvæðum laganna.
Eins og sjá má er mörg nýmæli að finna í þessum lögum og hafa aðeins nokkur þeirra verið nefnd hér. Við hvetjum bændur og aðra umráðamenn dýra til þess að kynna sér þau ítarlega og fara eftir ákvæðum þeirra. Lögin, frumvörpin og athugasemdir með þeim er að finna á vef Alþingis.

Sjá nánar:
Velferð dýra (heildarlög) - ferill málsins á Alþingi
Búfjárhald (heildarlög) ferill málsins á Alþingi