Notkun sæðinga eftir svæðum

Þessa dagana er mikið að gerast í fjárhúsum landsins því víða eru menn að leita að blæsma ám til að sæða og þar með leggja grunn að næstu kynslóð kynbótagripa á búum sínum.
Þátttaka í sæðingum er þó mjög breytileg eftir landsvæðum en á landsvísu hefur hún verið um 8% undanfarin ár sé miðað við fjölda kinda í skýrsluhaldi. Í nýlegum rannsóknum hefur verið bent á nauðsyn þess að auka notkun sæðinga frá því sem er í dag, það eykur ræktunarávinning til lengri tíma. Flestir sauðfjárræktendur ættu að stefna á að sæða 10-15% af ánum á búi sínu.
Myndin hér að neðan sýnir notkun sæðinga eftir sýslum síðasta vetur, það er hversu stór hluti ánna á hverju svæði var sæddur. Með batnandi samgöngum hefur dreifing á sæði batnað mikið undanfarin ár. Því eru bændur á Vestfjörðum, Skagafirði, Eyjafirði, N-Þingeyjarsýslu, N-Múlasýslu og V-Skaftafellssýslu sérstaklega hvattir til að nota sæðingar meira en verið hefur á þessum svæðum. Það mun skila sér í auknum afurðum á komandi árum.

Notkun sæðingar

Sé einhver í vafa um árangur sæðinga sýnir næsta mynd hvernig meðalkynbótamat kinda á völdum búum, þar sem tæplega 30% ánna hafa verið sæddar á hverju ári undanfarin 5 ár, hefur þróast. Myndin sýnir skýrt að örar framfarir hafa orðið í öllum eiginleikum í ærstofni allra búanna. Þar með eykst afurðageta gripanna á hverju búi, frjósemin eykst, lömbin verða þyngri og betur gerð og tekjurnar aukast einnig. Árangur sæðinga er því óumdeildur.

Ávinningur sæðingar

/eib