Notkun dýralyfja í búfé

Á vef Matvælastofnunar má lesa frétt um notkun dýralyfja fyrir búfé. Þar er fjallað um mikilvægi þess að rétt sé staðið að því að gefa dýrum lyf og þá fjallað sérstaklega um búfénað sem gefur af sér afurðir til manneldis. Vandamál tengd lyfjaþoli örvera eru sífellt að aukast en hægt er að minnka líkur á að lyfjaleifar finnist í dýraríkinu og draga úr líkum á fjölgun lyfjaþolinna örvera með því að sýna ábyrgð í lyfjanotkun. 

Hér að neðan má lesa fréttina sem var birt á vef Matvælastofnunar: 

Lyfjaþol og lyfjaleifar

Röng notkun lyfja getur aukið hættuna á að örverur myndi lyfjaþol og að lyfjaleifar finnist í dýraafurðum. Lyfjaþolnar örverur eru ónæmar fyrir örverudrepandi áhrifum sýklalyfja sem þær voru áður næmar fyrir og því getur reynst mjög erfitt að ráða niðurlögum sýkinga sem slíkar örverur valda ef sýklalyf sem algengt er að nota gegn þeim hrífa ekki lengur. Lyfjaleifar sýklalyfja í matvælum geta einnig stuðlað að myndun lyfjaþols hjá örverum í mönnum ásamt hættunni sem skapast fyrir þá sem eru með hvers kyns lyfjaofnæmi að fá ofnæmisviðbrögð vegna lyfjaleifa í matvælum sem þeir neyta. Ábyrg notkun dýralyfja er áhrifamesti þátturinn til að koma í veg fyrir þetta, sameiginleg ábyrgð liggur því hjá dýralæknum og bændum.

Skyldur dýralækna

Lög og reglugerðir fjalla um skyldur bænda og dýralækna sem þeir þurfa að standa skil á. Samkvæmt lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr ber dýralæknum að upplýsa eiganda eða umráðamann dýra m.a. um ástand dýra og meðhöndlun, auk þess um algengar aukaverkanir og biðtíma afurðarnýtingar fyrir þau lyf sem notuð eru. Biðtími afurðarnýtingar er sá tími sem þarf að líða frá því að lyfið var síðast gefið dýrum samkvæmt venjulegum notkunarskilyrðum þar til nýta má afurðir dýra til manneldis. Dýralæknir má aðeins afhenda eða ávísa dýralyfjum þegar hann hefur sjúkdómsgreint dýr samkvæmt sömu lögum. Einnig segir í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum að ekki sé leyfilegt að meðhöndla dýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis og skal dýralæknir sjálfur hefja meðhöndlunina ef um búfé er að ræða. Undantekning er þó á þessu ákvæði þannig að ef landfræðilegir staðhættir eða veðurfar eru þess valdandi að dýralæknir getur ekki hafið meðhöndlunina þá getur yfirdýralæknir veitt undanþágu. Dýralækni ber þá að gera sérstakan samning við viðkomandi bónda þar sem koma fram skilyrði sem báðir aðilar verða að uppfylla. Í reglugerð nr. 303/ 2012 um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun er tilgreint að dýralæknum sem meðhöndla búfé sé skylt að skrá sjúkdómsgreiningar og upplýsingar um lyfjameðhöndlun dýra í sérstakan gagnagrunn Matvælastofnunar sem nefndur er „Heilsa“. Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að skrá vegna nautgripa og hrossa, en nýlega bættist sauðfé við. Dýralæknar einir hafa aðgang að „Heilsu“ en gagnagrunnurinn miðlar og sækir upplýsingar úr skýrsluhaldskerfum Bændasamtaka Íslands og eru skráningar dýralækna sýnilegar bændum fyrir eigin dýr í skýrsluhaldskerfum þeirra, s.s. Huppu, Lambi og Worldfeng. Sláturhús fá upplýsingar úr „Heilsu“ um biðtíma afurðarnýtingar sláturdýra daglega sem eykur matvælaöryggi til muna og dregur þannig úr líkum á að lyfjaleifar séu í matvælum.

Skyldur bænda

Umsjónarmaður búfjár er ábyrgur fyrir því að skráningar séu til staðar á sjúkdómum og lyfjameðhöndlunum í búfé hans. Í reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár eru ákvæði um heilsukort þar sem krafa er um að upplýsingar um sjúkdóma og meðhöndlanir séu skráðar á eyðublöð sem Matvælastofnun viðurkennir eða í tölvukerfi. Í reglugerð nr. 103/2010 um hollustuhætti sem varða matvæli er einnig kveðið á um að bændur skulu halda skrár um notkun á dýralyfjum þar sem fram koma dagsetningar lyfjagjafa, biðtími afurðarnýtingar ásamt skrá um sjúkdóma, en þar segir einnig að frumframleiðendur geti notið liðsinnis annarra við skráningar t.d. dýralækna. Ábyrgð á að þessar skráningar séu til staðar hvílir því á bændum og skulu slíkar skráningar vera aðgengilegar við opinbert eftirlit, en Matvælastofnun hefur eftirlit með lyfjanotkun í búfé auk eftirlits með ávísun dýralyfja hjá dýralæknum. Sjúkdóma- og lyfjaskráningar geta ýmist verið til staðar í tölvukerfum eða á eyðublöðum (heilsukort) sem Matvælastofnun samþykkir. Hafi bændur aðgang að skráningum dýralækna, t.d. í skýrsluhaldskerfum eða eyðublöðum útfylltum af dýralæknum, þurfa bændur ekki að skrá upplýsingarnar sjálfir. Á heimasíðu Matvælastofnunar er að finna dæmi um heilsukort sem Matvælastofnun samþykkir.

Sjá nánar: Matvælastofnun

/okg