Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Um miðjan mars skruppu tveir starfsmenn RML til Noregs að læra búfjárdóma og ómmælingar á holdanautgripum. Kristian Heggelund, ábyrgðarmaður ræktunar hjá TYR, var leiðbeinandi og Svein Eberhard Østmoe, formaður Angus félagsins og eigandi Høystad Angus lagði til ársgamla gripi til að dæma.
Þjálfunin byrjaði á nautastöðinni Staur, þar sem 24 naut biðu dóms. Nautin voru þá búin að vera í 147 daga “testi” þar sem metin var vaxtargeta og fóðurnýting. Alls voru 80 naut á stöðinni af kynjunum Charolais, Simmental, Hereford, Limosín og Angus. Eftir dóm og mælingar eru sæðinganautin valin og naut sem ekki fara í sæðistöku eru flest seld, en naut sem falla á einkunn fara í slátrun. Þá eru það helst fæturnir á nautunum og skapið sem gera lokaútslagið, en það er lagt mikið upp úr að fótastelling sé rétt og halli klaufa einnig og að nautin beiti sér rétt á gangi.
Daginn eftir var haldið til Koppang, nánar tiltekið á Høystad Angus en hluti af nýja angus-erfðaefninu sem er í dreifingu á Íslandi kemur þaðan. Hjá Høystad Angus eru 50 anguskýr ásamt gripum í uppeldi. Burðartímabilinu var lokið en það er ekki óeðlilegt að burður sé á þessum tíma í Noregi. Aðstaðan er frekar einföld og eftir nokkra daga í einstaklingsstíu eru kálfarnir frjálsir í legubásafjósinu með kúnum og komast þeir í kálfaskjól á hálmi. Svein lætur dæma alla gripi ársgamla og er það mikilvægt fyrir hann að fá heildarmyndina af framleiðslunni og einnig að sjá það sem betur mætti fara. Er hann mikið í því að selja lífdýr og því nauðsynlegt að fá óháða aðila til að dæma og verðmeta gripina. Í ár komu 22 kvígur og 22 naut til dóms hjá honum og stóðu starfsmenn RML fyrir ómmælingum á öllum gripunum í einfaldri heimasmíðaðri aðstöðu undir hálfþaki í 25 stiga frosti.
Síðasta daginn var aftur farið á Staur með Kristian. Hann þurfti að skoða aftur nokkur naut sem voru á mörkunum eftir dóm ásamt því að vigta nokkra gripi til að fá lokaþunga fyrir „test“. Dagurinn endaði á skriftstofu TYR þar sem farið var yfir ómmyndir af nautunum í ómsjánni, teknar daginn áður hjá Svein. Ólíkt og í lambadómum eru fita og bakvöðvi ekki mæld á staðnum en myndirnar eru vistaðar í ómsjánni og mælingar gerðar á skrifstofu á eftir. Þá er þykkt fitu og bakvöðva mæld og spáð er fyrir um fitusprengingu, en hugbúnaður í ómtækinu gerir það. Þegar byggingadómur og ómmælingar eru komin inn í skýrsluhaldsforritið reiknar það út kynbótamat og raðar gripunum upp frá þeim besta til þess lélegasta. Gripir sem á ekki að nota til undaneldis eru merktir með rauðu. Upplýsingarnar eru opinberar þannig að kaupandi getur nálgast dóminn og uppröðunina í kerfinu.
Grein um búfjárdóma og ómmælingar holdanautgripa verður birt í Bændablaðinu eftir páska.
/hh