Nor98 greinist í Berufirði

Við reglulega skimun Matvælastofnunar eftir riðu greindist Nor98 (afbrigðileg riða) nýverið í kind frá bænum Krossi í Berufirði á Austfjörðum. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar, www.mast.is.

Síðast greindist  Nor98 í kind sem kom í sláturhús frá bæ á Jökuldal haustið 2011. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að Nor98 er ekki smitandi á sama hátt og hin gamalþekkta riða, sem stundum er nefnd "hefðbundin" riða. Nor98 hefur fundist í mörgum löndum en engar vísbendingar eru um að smitefnið berist milli kinda á náttúrulegan hátt. Nor98 hefur m.a. fundist á Nýja-Sjálandi sem er alþjóðlega viðurkennt að vera laust við hina gamalþekktu (hefðbundnu) riðu. Þó engar vísbendingar séu um að Nor98 smitist á náttúrulegan hátt, þ.e. milli kinda í hjörð, er ekki full vissa fyrir því að það geti ekki gerst. Á tilraunastofum hefur tekist að flytja smitefni frá einni kind í aðra með því að sprauta því í miðtaugakerfið, en ekki hefur ennþá verið sýnt fram á að smit berist á náttúrulegan hátt. Nor98 er talin afbrigðileg riða og það er álit Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að skera niður eins og gert er þegar um "hefðbundna" riðu er að ræða. Þó verður vöktun vegna riðu á Krossi og nágrannabæjum aukin.

Kross er í Suðurfjarðahólfi, þar sem "hefðbundin" riða hefur greinst á 13 bæjum á undanförnum 20 árum, það var á árunum frá 1994 til 2005. Í dag er sauðfé á sjö þessara bæja. Suðurfjarðahólf er því  skilgreint sem riðuhólf og verður það til 2025 ef ekki greinist þar hefðbundin riða á ný. Í riðuhólfum er bannað að flytja kindur milli hjarða og full ástæða er til að minna bændur á að það bann gildir um alla bæi í hólfinu.

Heimild: Matvælastofnun

mast/gj