Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Nú fer að líða að því að kynbótasýningar ársins fari að hefjast og er stefnt á 11 sýningar víðs vegar um landið. Fyrirkomulagið er með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár þar sem stefnan hefur verið tekin á að draga úr fjölda sýningarstaða til að reyna að stemma stigu við kostnaði við sýningar auk þess að með því móti er enn betur hægt að svara kröfum um frekari stöðlun sýningarstaða.
Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á dómkerfinu og er þetta afrakstur áralangrar vinnu studda með rannsóknum og aðkomu fagfólks í greininni. Breytingar felast í skýrara ræktunarmarkmiði og markmiði hvers eiginleika, uppfærslu á dómsskalanum með aukinni áherslu á eðlisgæði og fjaðurmagn á hægu, mýkt, jafnvægi og sjálfberandi hestgerð með rétta líkamsbeitingu að teknu tilliti til tengsla sköpulags og hæfileika. Skýrari kröfur eru nú gerðar á gæði gagntegunda fyrir hinar hærri einkunnir sem snúa að því að hross haldi gæðum gangtegunda á mismunandi hraðastigum, haldi jafnvægi í hraðabreytingum, séu sjálfberandi þannig að hægt sé að losa um taum á tölti án þess að jafnvægi eða gæði raskist. Mismunandi kröfur eru nú gerðar til hrossa eftir aldri, þar sem fullt sprettfæri á stökki og skeiði er styttra fyrir yngstu hrossin auk þess sem þröskuldur milli hægs tölts og tölts er lægri. Töluverð breyting var gerð á mati á samstarfsvilja þar sem aukin áhersla er nú lögð á þjálni, yfirvegun og taugastyrk hestsins í gegnum alla sýninguna. Samstarfsvilji er eini eiginleikinn sem opinn er til hækkunar og lækkunar á yfirlitssýningum enda gríðarlega mikilvægt að upplýsingar um greinilega bresti í þessum eiginleika skili sér í endalegt mat hrossa. Svo að úttekt hrossa sé eins stöðluð og sambærileg og kostur er hjá öllum sýndum hrossum, er mikilvægt að brautin fyrir reiðdóm sé skýrt afmörkuð. Það er skýrt kveðið í dómsskalanum hvernig tekið skuli á því séu hnökrar á viðsnúningum á brautarendum eða að afmörkun sé ekki virt. Mismunandi verkefni eins og hraðabreytingar á gangtegundum, losað um taum á tölti nýtast ekki einungis til að greina úrvalsgangtegundir heldur einnig til að sýna þjálni, yfirvegun og taugastyrk hrossa. Samhliða þessum breytingunum var dómblaðið uppfært með það að leiðarljósi að það skilaði ítarlegri og betri lýsingu á dæmdum eiginleikum, enda mikilvægt atriði í því leiðbeiningarhlutverki sem kynbótadómar hrossa eru. Hér er um að ræða línulegt mat á afmörkuðum þáttum mismunandi eiginleika. Varðandi áhersluatriði kynbótasýninga 2021 má nálgast samantekt kynbótadómaranefndar FEIF hér neðst á síðunni.
Það er viðbúið að breytingar sem þessar taki nokkurn tíma að fara að virka að fullu. Varðandi dómstörfin hefur mikil vinna verið lögð í samræmingu með símenntun alþjóðlegra kynbótadómara í vetur, þar sem meginmarkmiðið er að samhæfa dómarahópinn í notkun hins nýja dómskala og hinu línulega mati á undirþáttum eiginleikanna. Við uppgjör ársins 2020 í samanburði við fyrri ár mátti sjá að breytingarnar skiluðu sér hvorki í lægri eða hærri meðaltölum dóma né minni teygni þeirra. Hins vegar hafa áverkar aldrei verið færri og mun minna er um alvarlega áverka. Það er til marks um hestvænni sýningar sem hægt er að heimfæra að hluta til á breyttar áherslur með yfirvegun, jafnvægi og gæði á hægu í fyrirrúmi.
Í ár er tekin upp og gildir sú regla að hersla múla má ekki vera of mikil. Viðmiðin eru þau, að lágmarki 1,5 cm munur skal vera milli reimar nasamúls og nefbeins og að lágmarki 1 cm við efri reim ensks múls og nefbeins. Sýnendur mega ekki losa um múl að loknum reiðdóm áður en komið er í áverkaskoðun. Þá er vert að benda á að aðeins má nota enskan múl án skáreimar við mél með vogarafli.
Í ljósi aðstæðna vegna kórónuveirufaraldursins verða allir þeir sem koma sýningum að vera meðvitaðir og upplýstir um gildandi takmarkanir hverju sinni s.s. fjöldatakmörkun, nálægðarmörk og grímunotkun en samkvæmt reglum um kynbótasýningar hefur sýnandi val um að hafa einn aðstoðarmann með sér við sköpulagsdóma. Aukin áhersla verður í ár lögð á að dómnefndir geti starfað óáreittar við sköpulagsdóma og átt óhindraðar samræður sín á milli þannig að öll sjónarmið fái jafnt vægi í niðurstöðu dómsins.
Með þessum orðum vil ég óska ykkur öllum velgengni í ræktunarstarfinu á komandi sumri. Nýjar stjörnur munu fæðast og aðrar verða skapaðar með úthugsuðum pörunum og á kynbótabrautinni munum við berja augum gæðingafeður og gæðingamæður framtíðarinnar.
Elsa Albertsdóttir
Sjá nánar:
Samantekt kynbótadómaranefndar FEIF
/okg