Nokkuð hefur borið á skrifum um sýningargjöld á kynbótahrossum í hestamiðlum undanfarið og verðlagningu RML á þjónustu sinni. Því miður hafa þau skrif ekki verið byggð á staðreyndum og því mikið um rangfærslur sem eiga sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum. Það er því vert að setja fram nokkur atriði um málið.
Aðeins um framlög og fjármögnun RML:
- Í kjölfar niðurfellingar búnaðargjalds var tekin sú stefnumótandi ákvörðun að ráðgjafarþjónusta í landbúnaði yrði ekki lengur fjármögnuð af stórum hluta úr sameiginlegum sjóðum bænda heldur yrðu notendur þjónustunnar að greiða stærri hluta úr eigin vasa. Sú ákvörðun var tekin af eigendum RML sem eru íslenskir bændur, þar á meðal hrossabændur.
- Í núgildandi rammasamningi var gefinn 10 ára aðlögunartími að þessari breytingu, þannig að framlög sem komu í staðinn fyrir búnaðargjald munu lækka og hverfa alfarið við lok samningstímans. Það þýðir að ákveðin verkefni verða ekki borguð af sameiginlegum sjóðum.
- Bændur greiða ekki lengur búnaðargjald og geta því ráðstafað þeim fjármunum í þá þjónustu sem þeir telja að nýtist best í sínum búrekstri
- Þegar RML var stofnað 2013 greiddi hrossaræktin sem búgrein um 3,65% af heildarbúnaðargjaldi, kostnaður við kynbótasýningar einar og sér nam 6,3% af heildarrekstrargjöldum RML það ár og var það hlutfall óbreytt árið 2019
Vegna fyrirhugaðrar hækkunar á sýningargjöldum 2020 sem þegar þetta er skrifað er ekki búið að afgreiða úr Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu:
- Reynt hefur verið eftir fremsta megni að halda hækkunum á sýningargjöldum í lágmarki en við þurfum að fylgja þróun launa, til dæmis hækkunum á gistingu, fæði o.s.frv. Enda er markmið RML að sýningargjöldin standi að mestu undir kostnaði við sýningarhaldið en þó hefur RML greitt verulegar fjárhæðir með þeim.
- Nú er sótt um að fá að hækka verðskrána og er hluti þeirra upphæðar vegna hækkunar á vallargjöldum – vallargjöld hafa ekki hækkað síðan 2012, en vallargjöldin renna til þeirra sem reka sýningarvellina og eiga að koma til móts við kostnað við að halda úti frambærilegum kynbótavöllum. Hækkun á vallargjöldum skýrir 1.000 kr af þeirri hækkun sem sótt er um núna.
- Sýningargjöld hækkuðu ekkert í fyrra þrátt fyrir að borgað hafi verið með rekstri sýninganna undanfarin ár en um 1500 kr af þeirri hækkun sem sótt er um núna renna til RML.
- Hækkanir á sýningargjöldum eru ekki vegna fjölgunar í starfsliði kynbótasýninganna. Í mörg ár hefur sami fjöldi starfsmanna komið að kynbótasýningum, þrátt fyrir að verkefnum í tengslum við sýningarhaldið hafi fjölgað og tækjabúnaður verið aukinn. Mönnun sýninga hefur verið óbreytt frá því RML tók við sýningahaldi en að sýningu koma 3 dómarar, einn sýningarstjóri og einn ritari. Svo er bætt við þuli á yfirliti og á stærri sýningum aukamanneskju á brautarenda við fótaskoðun. Ákvarðanir um fjölda dómara og reglna í tengslum við sýningarhaldið er tekið í fagráði hrossaræktarinnar.
- Hlutfall tekna af gjöldum vegna kynbótasýninga hefur í gegnum árið legið í kringum 85% það þýðir að um 15% er borgað beint af RML. Tekist hefur að halda gjöldum niðri með mjög skipulögðum hætti og þar á starfsfólk, dómarar og verktakar heiður skilið fyrir mjög svo fórnfúst starf við oft á tíðum mjög krefjandi aðstæður.
- Vegna umræðu um áskrift að WorldFeng sem kostar á ári 21.695 kr. en nefndar hafa verið aðrar tölur úr verðskránni sem eiga við vefþjónustur en eiga ekki við áskrift einstaklinga að WorldFeng. Verðskánni hefur ekki verið breytt eftir að þjónustan færðist til RML nú um áramót. Þá er gott að minna á að ef fólk er félagi í hestamannafélagi eða hrossaræktarsambandi þá er áskrift að WorldFeng frí en það er vegna samninga við annars vegar Landssamband hestamannafélaga og hins vegar við Félag hrossabænda.
Með von um uppbyggilega og sanngjarna umræðu um málefnið, hrossaræktinni allri og ræktunarstarfinu til heilla
Gleðilega páska
Karvel L. Karvelsson
Framkvæmdastjóri RML
/okg