Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Það er alltaf mikilvægt að vanda val sláttutíma, ekki síst við fyrsta slátt sem yfirleitt er að gefa verðmætasta gróffóðrið. Þar ræður mestu fyrir hvaða gripi er verið að heyja og hvaða væntingar eru um magn heyja og gæði þeirra. Hey fyrir mjólkurkýr þurfa að hafa hátt orkugildi og vera hæfilega próteinrík en innihalda jafnframt nægilega mikið af tréni til að tryggja gott vambarheilbrigði kúnna. Miða má við til að fá gott hey fyrir mjólkurkýr að slá vallarfoxgras þegar það byrjar að skríða. Viðmið eins og þetta þurfa bændur að læra á með því að taka heysýni og bera saman milli ára. Munur á árferði og ólíkur sprettuferill grasanna gerir það að verkum niðurstaðan verður ekki alltaf sú sama. Eins ræðst besti tíminn til sláttar mikið af samsetningu gróðursins og veðri.
Við skrið og aukinn þroska grasanna eykst tréni í þeim meltanleiki lækkar og orkan verður minni. Jafnframt lækkar prótein og magn annarra næringarefna.
Sláttuhæð
Það er mikilvægt að stilla sláttuvélina ekki of nærri. Fyrir nýlega ræktuð tún er mælt með að sláttuhæð sé ekki minni en um 8-10 sm. Með sláttuhæð er átt við hver stubbhæð grasanna er eftir slátt. Samanburður sem gerður var á 5 og 10 sm. sláttuhæð sýnir eins og vænta mátti að magn uppskeru verður meiri við lægri sláttuhæðina en heygæðin verða minni. Hærri sláttuhæðin skilar hærri meltanleika (hærra orkugildi) og próteini í fóðrinu og minna tréni. Við hana liggur grasið einnig á hærri stubb og fjær jörðu sem leiðir til þess að það þornar hraðar og verkun þess verður betri. Þegar jarðvegur eða ryk blandast í hey getur það haft óæskileg áhrif á verkun þess og valdið skemmdum í geymslu. Hættan á þessu er meiri við litla sláttuhæð m.a. vegna þess að heyvinnutæki eru þá að vinna nær yfirborði jarðvegs og rífa því frekar upp jarðveg og önnur óhreinindi sem menga heyið.
Þegar sláttuhæð er lítil seinkar það endurvexti grasa og hvenær taka megi seinni slátt. Vallarfoxgras er sérstaklega viðkvæmt fyrir því að vera slegið nærri.
Forþurrkun
Það er mikilvægt fyrir góða verkun heyja og lystugleika þeirra að þau þorni hratt eftir slátt. Því þarf að snúa og dreifa úr sláttuskárum strax eftir slátt til að flýta því ferli og hindra öndun plöntufruma og niðurbrot orku sem þá á sér stað meðan raki í grasinu er nægur. Það þarf að vanda fyrsta snúning, aka á móti sláttustefnu til að dreifa vel úr sláttuskárunum. Í tuggum sem ekki gefur tekist að ná til og fara blautar saman við þurrara hey við hirðingu eru aðstæður fyrir óæskileg gerjun sem síðan getur breitt út frá sér og spillt fóðrinu hvort sem það er í rúllum eða stæðum. Þegar forþurrkun gengur hægt ætti ekki að hafa hana lengur en í tvo sólarhringa og taka heyið frekar saman ef þess er kostur.
Við slátt er þurrefnisinnihald í grasi aðeins um 15-20% og ræðst m.a. af veðurfari, grastegundum og þroskastigi plantnanna. Til að hindra tap næringarefna vegna frárennslis plöntusafa þarf að forþurrka að 30% þurrefni. Við þurrkun á einu tonni af grasi úr 15% þurrefni í 30% eru fjarlægð 500 kg af vatni sem minnkar kostnað og léttir vinnu við heyskapinn.
Forþurrkun hefur áhrif á heymagn í rúllum. Mælingar sýna að magn þurrefnis af heyi í rúllum (rúmþyngd kg þe/m3) eykst þar til um 55% þurrefni er náð. Við meiri þurrkun virðist heymagnið ekki aukast nema heyið sé mikið skorið. Við mikla þurrkun er líklegra að rúmþyngdin í rúllum verði heldur minni en við þurrefnisstig 55-65%. Við forþurrkun að 55% þurrefni rúma því færri rúllur það heymagn sem spildan gefur sem þýðir að það þarf minna plast utan um það og meðhöndla þarf færri rúllur.
Við mikla þurrkun heyja á velli eykst tap næringarefna vegna molnunar verðmætra plöntuhluta s.s. blaða sem þorna hraðar en stönglar. Þessu veldur m.a. notkun heyvinnuvéla og þarf að beita þeim að meiri varúð eftir því sem heyið verður þurrara.
Áhrif þurrkstigs heyja á lystugleika og át gripa eru ólík eftir tegundum búfjár. Fyrir mjólkurkýr virðist ekki vera hagur af því að þurrka hey meira en í um 40% þe. Fyrir hross er sennilega betra að forþurrka meira m.a. vegna þess að blautt hey fyrir hross á húsi kallar á meiri undirburð. Almennt má segja að fyrir sauðfé aukist lystugleikinn eftir því sem heyið er þurrara.
Sláttur í múga eða dreifða sláttuskára
Eins og áður er nefnt er mikilvægt að grasi sé vel dreift eftir slátt til að það byrji strax að þorna og þorni hratt. Því er mikilvægt að snúa strax eftir slátt og dreifa úr sláttuskárunum. Það er reyndar misjafnt hvernig skárum sláttuvélar skila. Sláttuvélar með knosara skila frá sér skárum sem loftar betur um en vélar án knosara og veldur það hraðari þornun. Stönglar þorna hægar en blöð og á knosarinn einnig að flýta þornun stöngla með því að merja eða hrufla þá og opna þannig vaxhúð þeirra. Best er að grasið í leggist í dreifðan skára aftur úr sláttuvélinni. Þannig þornar það hraðar en ef það liggur í þykkari múga.
Íblöndunarefni
Notkun íblöndunarefna getur verið breytileg milli ára m.a. háð veðurfari. Í sumum árum eru þau nauðsynleg til að tryggja næg fóðurgæði. Virkni efna er mismunandi og mikilvægt að velja efni sem henta aðstæðum hverju sinn. Sum henta best í blautt fóður meðan önnur eru betri í forþurrkað hey. Séu skilyrði til verkunar ákjósanleg, slegið á góðum tíma og ekki óhreinindi í heyinu eða annað sem spillt getur verkun þess er ekki ástæða til að nota íblöndunarefni.
Lífræn íblöndunarefni innihalda gjarnan mjólkursýrugerla sem ætlað er að hraða æskilegri gerjun. Til að gerjunin verði hröð þurfa aðstæður fyrir mjólkursýrugerlana að vera góðar og þurrkstig heysins komið í a.m.k. 30%. Við krefjandi aðstæður t.d. ef rakastig í heyinu er lágt eða lítið af sykri í því henta kemísk efni eins og sýrur og sölt betur. Þau lækka sýrustig í heyinu hratt og koma þannig í veg fyrir að óæskileg gerjun nái sér á strik. Sumum efnum er ætlað að hindra myglu í heyinu og önnur auka geymsluþol á heyi eftir að stæða er opnuð.
Dæmi um aðstæður sem kalla á notkun íblöndunarefna eru óhreinindi eða jarðvegsmengun í heyinu, áberandi magn af illgresi s.s. arfa saman við heyið og ef búast má við að heyin séu mjög próteintík sem getur leitt til þess að nítrat verði hátt.
Við val á íblöndunarefnum þarf að vera ljóst hvaða markmiði ætlunin er að ná með notkun þeirra. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum um notkun íblöndunarefna og nota þá skammta sem mælt er með. Efnin verða aðeins að fullu gagni ef þau blandast jafnt og vel saman við heyið.
Gleymum ekki viðhaldi véla
Koppafeitin er góður vinur allt sumarið og er gott að hafa í huga að smyrja þarf vélar eftir og við notkun. Vel smurð vél skilar betri afköstum, endist lengur og þarf minna viðhald þegar upp er staðið. Það getur sparað mikinn kostnað.
Til að nýta vélarnar sem best þarf huga að akstri, hafa hann jafnan og halda góðum hraða. Oftar en ekki á það við að stilla aflúttak á ECO-PTO og spara þannig eldsneyti. Rétt stillir hnífar og vel brýndir geta aukið afkastagetu allt að 20%. Er hugsanlega komið að því að endurnýja hnífa?
Rétt aksturstækni gefur betri árangur
Mynd: Elena Westerhof
Breiðir og jafnir múgar gefa betri innmötun þegar rúllað er, akstur verður minni en ef þeir væru mjóir og ójafnir og heymagn verður jafnara og þéttara í rúllunni. Skilar sér einnig í minni notkun á olíu og plasti þegar upp er staðið.
Vandvirkni við akstur þannig að vinnslubreidd tækja nýtist sem best minnkar vinnslutíma og notkun véla og minnkar olíunotkun. Akstur um tún þarf að skipuleggja þannig að hann valdi sem minnstri þjöppun jarðvegs. Nútímatækni eins og akstur eftir GPS hjálpar gríðarlega í þessum efnum. Rétt stilltar vélar róta minna í sverði túnsins og virka á allan hátt betur, slit verður minna og ending vélanna betri.
Pökkun og geymsla rúllubagga
Til að rúllubaggar séu sem best varðir eru 6 lög af plasti gott viðmið. Þannig má tryggja að stærri og þyngri baggar geymist vel og standi af sér erfið veður. Með því að pakka fjórfalt má spara plast og má gera við hey sem vitað er að gefa á fljótlega en sé það geymt lengi er hætta á fóðurtapi. Sé ætlunin að fyrna hey í rúllum eða gefa seint að vetri, að vori (verðmætt sauðburðarhey) eða jafnvel fram á sumar gæti verið skynsamlegt að pakka áttfalt.
Frágangur enda er mikilvægur, lausir endar valda því að plastið losnar frá, bæði vond geymsla og sóðaleg. Best er að koma heyfeng sem fyrst heim af túni og heim í stæðu. Rannsóknir sýna að best er að flytja hey sem fyrst eftir pökkun og koma því þannig fyrir að ekki þurfi að hreyfa við því fyrr en það er gefið.
Velja góðan stað þar sem er skjólsælt og ekki verður ágangur af skepnum. Aðgengi að stæðunni sé gott allan veturinn. Taka mið af þurrefnisinnihaldi þegar er raðað í stæður. Til viðmiðunar mætti hafa í huga:
Af hverjum bagga fellur til um 1 kg af plasti og endurvinnsla er heppilegasta aðferð til förgunar þess. Fyrir endurvinnslu eru góður hreinleiki plastsins skilyrði og að net bönd og hey sé skilið frá. Plastið er þá unnið í kúlur sem síðan eru notaðar til að framleiða nýjar plastafurðir.
/okg