Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nóvember 2013

Niðurstöðurnar úr skýrslum nautgriparæktarinnar í nóvember 2013 hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar niðurstöðurnar urðu til á miðnætti aðfaranótt 11. desember var búið að skila skýrslum nóvembermánaðar frá 91% hinna 584 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Reiknuð meðalnyt 20.781,8 árskúa var 5.649 kg síðastliðna 12 mánuði sem er 3 kg meira en við lok október. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem skýrslum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma var 38,9. Sambærileg tala í síðasta mánuði var 39,0 árskýr.

Mest meðalnyt á síðustu 12 mánuðum var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal 7.617 kg á árskú. Það bú var hið þriðja í röðinni í síðasta mánuði. Annað í röðinni nú í nóvember var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal en það stóð efst við síðasta uppgjör. Nú var meðalnytin þar 7.607 kg á árskú. Hið þriðja í röðinni að þessu sinni var bú Félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum. Það var einnig nr. 3 á listanum fyrir mánuði en þar var meðalnytin 7.562 kg á árskú sl. 12 mánuði. Fjórða búið í röðinni núna en nr. 6 seinast var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði en þar reiknaðist meðalnytin á síðustu 12 mánuðum 7.513 kg. Númer 5 við lok nóvember en nr. 7 mánuðinn á undan, var bú Valdimars Óskars Sigmarssonar á Sólheimum í Sæmundarhlíð. Þar var nyt árskúnna 7.465 kg. Á 26 búum reiknaðist meðalnytin nú 7.000 kg eða meiri en á 27 búum við næsta uppgjör á undan.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var kýr nr. 528 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum (f. Baugur 05026) en hún mjólkaði 12.287 kg á tímabilinu. Þessi kýr var einnig nr. 1 í röðinni við síðasta uppgjör. Önnur nythæsta kýrin við lok nóvember var Tígulstjarna nr. 411 í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum (f. Hjálmur 04016) en nyt hennar var 12.031 kg undanfarna 12 mánuði. Þriðja nythæsta kýrin nú en hin fjórða á seinasta uppgjöri var Huppa nr. 1123 á Stóra-Ármóti í Flóa (f. Kappi 01031) en hún skilaði 11.549 kg sl. 12 mánuði. Hin fjórða á listanum að þessu sinni en önnur fyrir mánuði, var kýr nr. 1094 í Bjólu 2, áður í Djúpárhreppi, nú í Rangárþingi ytra (f. nr. 988 undan Laska 00010) en hún mjólkaði 11.544 kg á tímabilinu. Fimmta kýrin var Rabína nr. 1065 í Hólmi í Austur-Landeyjum (f. Ári 04043) en nyt hennar var 11.444 kg fyrrnefnt tímabil. Ellefu kýr mjólkuðu yfir 11.000 kg síðustu 12 mánuði og þar af tvær yfir 12.000 kg. Í hópnum sem náði 11.000 kg og yfir voru 14 kýr fyrir mánuði. Tvær kýr komust yfir 12.000 kg sl. 12 mánuði eins og við uppgjör októbermánaðar.

Sjá nánar:
Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni

/sk