6.000 lítra múrinn rofinn - niðurstöður úr afurðaskýrslum nautgriparæktarinnar í mars 2015

Tankur frá Hurðarbaki - mynd frá Nautastöðinni
Tankur frá Hurðarbaki - mynd frá Nautastöðinni

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni nú í mars hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um hádegisbil þ. 11. apríl, höfðu skýrslur borist frá 93% þeirra 578 búa sem skráð voru til þátttöku. Reiknuð meðalnyt 24.055,0 árskúa á þessum 93% búanna, var 6.003 kg á síðustu 12 mánuðum. Sambærileg tala frá því fyrir mánuði síðan var 5.970 kg. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum fyrir mars hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 44,7 en var 44,9 fyrir mánuði. Minna má á að ekki er hér um að ræða 100% skil skýrslna og skoða ber niðurstöðurnar í samræmi við það.

Mest meðalnyt árskúa á síðustu 12 mánuðum var eins og undanfarna mánuði á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en þar var nytin 8.352 kg. Annað í röðinni að þessu sinni en þriðja fyrir mánuði var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.252 kg síðustu 12 mánuðina. Þriðja búið nú en annað á listanum við lok febrúar var bú Pálma Ragnarssonar í Garðakoti í Hjaltadal þar sem meðalárskýrin skilaði 8.095 kg. Fjórða á listanum nú við lok mars var bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellströnd í Dölum þar sem meðalnytin var 7.987 kg. Fimmta búið við uppgjör marsmánaðar var bú Björgvins Rúnars Gunnarssonar á Núpi á Berufjarðarströnd en þar voru meðalafurðir síðustu 12 mánaða 7.831 kg.

Nythæsta kýr síðustu 12 mánaða en önnur í röðinni við seinasta uppgjör var Fiðla 1074 (f. Boli 0889, undan Goða 05025) á Gili í Skagafirði en nyt hennar reyndist nú 13.845 kg. Önnur í röðinni en efst seinast var Emma nr. 738 (f. Bolti 09021) í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði en hún skilaði nú 13.476 kg. Þriðja nú við lok mars en fimmta við lok febrúar var Rauðsíða nr. 614 (f. Ófeigur 02016) í Garðakoti í Hjaltadal. Nyt hennar á síðustu 12 mánuðum var 13.111 kg. Fjórða í röðinni við uppgjör marsmánaðar var Máney 370 (f. Lykill 02003) á Steinsstöðum II í Öxnadal, sem mjólkaði 12.509 kg. síðustu 12 mánuði. Fimmta á listanum nú en þriðja fyrir mánuði var kýr nr. 718 (f. Laufás 08003) á Innri-Kleif í Breiðdal sem skilaði 12.330 kg.

Alls náðu 58 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum fyrir mars hafði verið skilað frá um hádegisbilið þ. 11. apríl, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Við seinasta uppgjör náðu 61 kýr því marki. Níu, af þessum 58 kúm, náðu að skila meiri mjólk en 12.000 kg. Þar af skiluðu þrjár meiri afurðum en 13.000 kg.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk