Niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar í janúar 2017

Spakur frá Reykjum á Skeiðum
Spakur frá Reykjum á Skeiðum

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni nú í nýliðnum janúar hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til skömmu eftir hádegið þ. 13. febrúar, höfðu skýrslur borist frá 568 búum. Reiknuð meðalnyt 24.688,4 árskúa á þessum búum, var 6.057 kg á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 43,5 á tímabilinu.

Eins og menn sjá eflaust er um að ræða afurðalækkun frá fyrra mánuði um 76 kg/árskú. Skýringin á þessu er sú að töluverðar breytingar hafa nú átt sér stað og er þar bæði að allmörg bú koma nú ný inn í skýrsluhald sem og að þó nokkur bú hættu framleiðslu í lok árs 2016. Þau bú sem koma ný inn reiknast með lítinn fjölda árskúa og reiknaðar meðalafurðir á þeim búum gefa ekki rétta mynd af afurðum þeirra búa fyrr en að lengri tíma liðnum.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og við seinustu uppgjör, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr mjólkaði þar 9.098 kg. á tímabilinu. Næsta bú á eftir að þessu sinni var bú Þrastar Þorsteinssonar á Moldhaugum við Eyjafjörð þar sem meðalárskýrin skilaði 8.324 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni nú var Félagsbúið á Espihóli í Eyjafjarðarsveit þar sem hver árskýr skilaði að meðaltali 8.169 kg á tímabilinu. Fjórða var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnyt árskúnna var 8.116 kg. á síðustu 12 mánuðum. Fimmta var bú Gautsstaða ehf. á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd en meðalárskýrin þar mjólkaði 8.097 kg. síðustu 12 mánuðina. Búin sem hér eru talin eiga það sammerkt að skýrslum um nyt þar hefur verið skilað jafnt og þétt undanfarið ár.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var Nína 676 (f. Ófeigur 02016) á Brúsastöðum í Vatnsdal sem mjólkaði 14.422 kg. síðustu 12 mánuði. Næst á eftir henni kom Pollýanna (f. Hegri 03014) einnig á Brúsastöðum en hún skilaði 14.204 kg. á tímabilinu. Þriðja kýrin var Surtla 695 (f. Gæi 09047) á Moldhaugum við Eyjafjörð sem mjólkaði 13.202 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náðu 83 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir janúar hafði verið skilað frá skömmu eftir hádegi þ. 13. febrúar, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þeim reiknuðust 23 hafa mjólkað yfir 12.000 kg. og fimm af þeim komust yfir 13.000 kg. markið. Tvær þeirra síðastnefndu mjólkuðu meira en 14.000 kg.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

sk/gj