Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni í nýliðnum janúar hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um kl. 10:00 þ. 11. febrúar, höfðu skýrslur borist frá 94% þeirra 577 búa sem skráð voru til þátttöku. Reiknuð meðalnyt 24.281,9 árskúa á þessum 94% búanna, var 5.931 kg á síðustu 12 mánuðum. Til samanburðar reiknaðist meðalnyt árskúa á búunum í skýrsluhaldinu á árinu 2015, 5.851 kg, en við uppgjör hvers almanaksárs er miðað við að skýrsluskil séu sem næst 100% áður en niðurstöðurnar eru birtar. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum fyrir janúar hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 44,6. Minna má á að ekki er um að ræða 100% skil skýrslna og skoða ber niðurstöðurnar í samræmi við það.
Mest meðalnyt árskúa á síðustu 12 mánuðum var á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en þar var nytin nú 8.323 kg. Bú Péturs hefur verið í efsta sæti á þessum lista undanfarna mánuði. Annað í röðinni að þessu sinni og einnig við lok síðasta árs, var bú Pálma Ragnarssonar í Garðakoti í Hjaltadal þar sem meðalárskýrin mjólkaði nú 7.994 kg á tímabilinu. Hið þriðja í röðinni nú var bú Félagsbúsins í Engihlíð í Vopnafirði þar sem meðalafurðir árskúnna reyndust 7.950 kg. Búið í Engihlíð var í fjórða sæti við árslok 2015. Fjórða búið við lok janúar var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem nytin reyndist 7.948 eftir árskúna. Fimmta búið í röðinni að þessu sinni en í þriðja sæti við nýliðin áramót var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði þar sem meðalnyt árskúnna var 7.874 kg á síðustu 12 mánuðum.
Kýrin Emma nr. 738 (f.Bolti 09021) í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði reyndist nythæst á síðustu 12 mánuðum, mjólkaði 13.259 kg. Hún var þriðja í röðinni við seinasta uppgjör. Önnur í röðinni var Fiðla 1074 á Gili í Skagafirði en nyt hennar reiknaðist 12.759 kg á tímabilinu. Þriðja var Ljóna nr. 501 (f. Framherji 07022) í Smjördölum í Flóa sem skilaði 12.728 kg. Fjórða á listanum en fimmta við lok síðasta árs var kýr nr. 825 (f. nr. 607 undan Laska 00010) í Stóru-Mörk 3 undir Eyjafjöllum en sú kýr mjólkaði 12.432 kg. Fimmta í röðinni að þessu sinni er önnur seinast var Urður 1229 (f. Laski 00010) á Hvanneyri í Borgarfirði. Nyt hennar reyndist 12.325 kg undanfarna 12 mánuði.
Alls náðu 48 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum fyrir janúar hafði verið skilað frá um kl. 10:00 þ. 11. febrúar, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Við seinasta uppgjör náðu 47 kýr því marki. Átta af þessum 48 kúm náðu að skila meiri mjólk en 12.000 kg og enn fremur mjólkaði ein þessara kúa yfir 13.000 kg á síðustu 12 mánuðum.
Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar
/sk