Niðurstöður skýrsluhalds sauðfjár 2016

Uppgjöri skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir árið 2016 er að mestu lokið þó leynist ófrágengnar „eftirlegukindur“ á nokkrum búum. Bændur er því minntir á að skil eru ekki fullnægjandi fyrr en haustgögnum er skilað og framleiðsluárið 2017 hefur opnast. Frá og með síðustu áramótum eru fullnægjandi skil á afurðaskýrsluhaldi ein af forsendum þess að njóta stuðnings skv. reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt sem tók gildi um áramótin.
Skila þarf vorgögnum 2017 fyrir 20. ágúst nk. og er þeim bændum sem eru að hefja þátttöku í afurðaskýrsluhaldi bent á að vera tímanlega með skil þar sem oft þarf auka aðstoð við skýrsluhaldsskil í byrjun.

Uppgjör ársins 2016 kemur glimrandi vel út og hafa reiknaðar afurðir eftir hverja kind í skýrsluhaldinu aldrei verið meiri í sögu skýrsluhaldsins en formleg uppgjör eru til frá árinu 1954. Reiknaðar afurðir síðasta árs eru 28,3 kg eftir hverja kind. Munar þar mestu um aukin fallþunga síðasta haust en jafnframt hefur áhrif góð frjósemi vorið 2016 og betri lambhöld en tíðarfar var sauðfé einkar hagstætt um allt land á síðasta ári.

Árið 2016 stóð bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum efst með 44,8 kíló eftir hverja kind sem eru litlu minni afurðir en búið hafið árið áður. Félagsbúið að Lundi á Völlum á Fljótsdalshéraði skipar annað sætið með 40,2 eftir hverja kind sem er ekki síður góður árangur þar sem tæplega 600 kindur eru á búinu og fallþungi tæplega 900 sláturlamba tæp 22 kg en nánast öll lömb eru farin í slátrun frá búinu í byrjun október ár hvert. Mestar afurðir eftir hverja kind að jafnaði er að finna í Strandasýslu, 30,8 kg og Vestur-Húnavatnssýsla er þar skammt á eftir með 30,3 kg eftir hverja kind. Best gerðu sláturlömbin á búum þar sem eru fleiri en 100 sláturlömb eru hjá Jóni og Ernu í Broddanesi líkt og undanfarin ár en gerðareinkunn sláturlamba var 12,1 síðasta haust.

Allar nánari upplýsingar um uppgjör ársins má finna hér:

FORRIT OG SKÝRSLUHALD > FJÁRVÍS.IS > SKÝRSLUHALD - NIÐURSTÖÐUR 2016 

/eib